Börnin eru eins og við lítum á þau
Gott foreldrasamstarf og gagnkvæm virðing lykillinn að farsæld.
Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.
Námsráðgjöf í Gerðaskóla:
Laufey Erlendsdóttir hefur sinnt 25% starfi sem námsráðgjafi við Gerðaskóla í sjö ár, samhliða kennslu á unglingastigi. Hún er íþróttakennari að mennt og lýkur viðbótarnámi á BS stigi sem íþróttafræðingur í vor. Laufey hefur kennt við skólann í 16 ár og þá flestar greinar á miðstigi og unglingastigi, þó minnst íþróttir.
Kynnir starf sitt fyrir yngri nemendum
Börnin leita stundum beint til Laufeyjar en meira er um að þeim sé vísað til hennar. Hún leggur þó áherslu á að það sé ávallt í boði að koma til hennar ef hún er laus. „Ég hef unnið meira með eldri nemendum því yngri nemendur eru smám saman að læra inn á hvert hlutverk námsráðgjafa. Því legg ég áherslu á að kynna starfið mitt fyrir yngstu nemendum, kynnast þeim og hvetja þau til að koma í spjall þó ekkert bjáti á,“ segir Laufey.
Tilfinningastjórnun mikilvæg
Hún hefur mikinn áhuga á almennri lífsleikni og segir að í almennri umræðu séu unglingar opnari en áður, sérstaklega í einstaklingsviðtölum. „Þau eru opin en þurfa kannski að koma orðum að tilfinningum sínum. Þau finna að eitthvað angrar þau, svo sem magapína, kvíði eða pirringur en vantar að geta skilgreint það. Þau þekkja oft ekki umræðu um tilfinningar og hvort þau stjórni þeim sjálf eða ekki. Það er hægt að hjálpa þeim að koma þeim í farveg,“ segir Laufey og bætir við að tilfinningastjórnun sé mikilvæg, sem og skilningur á eigin tilfinningum.
Óöruggir á samskiptamiðlum
Laufey segir suma unglinga ekki nógu örugga á samskiptamiðlum og staðsetji sig í vinahópum eða í samfélaginu út frá einhverjum forsendum sem koma fram á slíkum miðlum. Það geti haft heilmikið með sjálfsmyndina að gera þó að það komi ekki auga á það sjálf. „Börn og unglingar eru á alls kyns miðlum sem maður þekkir varla sjálfur. Sumir eru ekki með sjálfsmyndina á hreinu og ekki alveg klár á því á hverju þau eiga að byggja hana. Hvað er það sem þeim líður vel með, eru stolt af og sátt við? Hver er þeirra vilji?“
Spegla sig í „like“ og „snapchat“
Hún segir marga til dæmis horfa á vini sína áður en þeir rétta upp hönd og segja sína skoðun. „Í gamla daga var bara litið í spegil til þess að meta hvað maður var sáttur með og hvað ekki. Núna snýst þetta allt um einhvers konar athygli sem þau ráða ekki við. Þau spegla sig í svo mörgu öðru. Er það hvað þau segja, skoðanir þeirra, hvernig þau líta út eða hversu mörg „like“ eða „snapchat“ þau fá. Forsendurnar geta verið flóknar.“ Laufey bendir í þessu samhengi á að mikilvægt sé að börn útskrifist úr grunnskóla með þekkingu á styrkleikum sínum og einn af mikilvægustu þáttum skólastarfsins gangi út á það. „Þau eru oft mun meðvitaðri um veikleika sína, sérstaklega ef um einhverja námserfiðleika er að ræða.“
Foreldrar miklu velkomnari en þá grunar
Erfiðustu málin sem Laufey segist fást við tengjast oft heimilisaðstæðum. „Ef það er eitthvað að heima þá er alltaf erfiðara að hjálpa barninu. Það er alltaf erfiðara að vinna í málum og styrkja barnið í slíkum málum og þau eru viðkvæm. Ef um er að ræða einhverskonar vanda heima, erfið samskipti, veikindi, vanlíðan eða jafnvel eitthvað enn verra.“ Það geti verið sérstaklega erfitt ef foreldrar eru í afneitun gagnvart vandamálum. Gott foreldrasamstarf sé lykillinn að farsæld og forsenda þess að barninu gengur vel og líður vel í skóla. „Skólinn er miklu opnari fyrir foreldra en þá grunar. Þeir mega miklu meira koma og fylgjast með í tímum og taka þátt í skólastarfinu.“
Sumir hlusta en heyra ekki neitt
Þá segir Laufey gagnkvæmt traust og virðingu skipta miklu máli. „Það skiptir einfaldlega miklu máli hvernig við tölum við börn. Við verðum að sýna þeim áhuga og virðingu til að skapa traust. Það er vel hægt að tala við börn með virðingu eins og hentar aldri þeirra, t.d. með því að horfa í augun á þeim og leyfa þeim að finna að þú ert að hlusta. Sumir hlusta en heyra ekki neitt,“ segir Laufey og bætir við að samskipti séu svo mikið lykilatriði. „Ég sé víða samskipti sem mættu vera betri, bæði innan skóla og utan. Börn eru næm á tón þegar eitthvað er ekki í lagi. Því er mikilvægt að nota ekki alltaf sama tóninn þegar verið er að skamma og leiðbeina. Það skiptir meira máli hvernig hluturinn er sagður en hvað er sagt. Þeir sem þú átt samskipti við muna ekki endilega hvað þú sagðir en þeir muna hvernig þú lést þeim líða,“ segir Laufey.
Gagnkvæmt traust og virðing
Í starfi sínu og utan þess segir Laufey suma tækla samskipti og agamál mjög vel en aðra bara alls ekki. Hún segist jafnframt þroskast sjálf mikið í starfinu og læri svo mikið af því sem hún fæst við allan daginn. „Þegar ég á jákvæð samskipti við nemendur og get rætt við þá í gagnkvæmu trausti og virðingu þá veit ég að ég er að gera rétt. Þá skilar sér það sem ég er að gera. Góður félagsskapur við börn og tengsl við þau eru mjög gefandi. Ef maður fer með það viðhorf út í daginn að börnin séu öll heilbrigðir og skemmtilegir einstaklingar þá bara verða þau það. Viðhorfið skiptir svo miklu máli. Börnin eru eins og við lítum á þau,“ segir Laufey að lokum.