Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Börnin endurspegla heimilin
Guðjón Sigbjörnsson.
Laugardagur 18. janúar 2014 kl. 08:00

Börnin endurspegla heimilin

Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.

Námsráðgjöf í Njarðvíkurskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég fæst mikið við það sem tengist líðan nemenda; tilfnningaflækjur, kvíða og jafnvel þunglyndi. Ég finn fyrir auknum kvíða hjá börnum sem endurspegla heimili sín. Félagslegan vanda af einhverju tagi. Einnig koma til mín börn sem þurfa að spjalla um daginn og veginn og þurfa einhvern sem hlustar á þau,“ segir Guðjón Sigbjörnsson en hann er í 50% starfi sem námsráðgjafi við Njarðvíkurskóla. Guðjón er ekki menntaður sem slíkur en á að baki 40 ára reynslu sem kennari og umsjónarkennari. Hann segir starfið afskaplega fjölbreytt og viðfangsefni af öllum toga. Námsráðgjöf sé í raun ekki lengur rétta orðið yfir það sem fengist er við. Hún sé meira á vorin þegar elstu nemendur eru á leið í framhaldsskóla.

Erum ávallt á tánum

Nemendur koma til Guðjóns alveg frá 1. og upp í 10. bekk til að spjalla. Sumir koma og banka upp á en einnig er um tilvísanir frá kennurum og það er algengasta leiðin. Oft kemur vandi fyrst í ljós í viðtali hjá honum. .„Kennarar eru ávallt á tánum við að greina vanda barna og leita eftir úrræðum. Oft er hægt að leysa vanda sem kennarar finna og þá tek ég við. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að skóli geti haft starfsmann sem sinni þessu og taki við svona málum frá kennurum. Þeir eru oft með stóra bekki og álag á þeim er mikið,“ segir Guðjón og tekur sérstaklega fram að samvinna sé við heimili og foreldra um mál sem enda hjá sálfræðingi skólans eða barnaverndarnefnd.

Fær ábendingar frá gangaverði

Guðjón segir að ekki aðeins kennarar, heldur allir starfsmenn skólans, séu meðvitaðir um velferð nemanda. „Ég fæ stundum ábendingar frá gangaverði. Oft er ástæða fyrir tilvísun og ekki endilega eitthvað að barninu heldur baklandinu. Sem betur fer er oft hægt að gera ýmislegt til að hjálpa eða styðja við. Mikið er um sálgæslu og velferðargæslu í dag og það er af hinu góða. Við erum meira vakandi yfir andlegri velferð nemenda en áður.“

Mörg á flakki á milli skóla

Þá segir Guðjón áberandi hversu mörg börn eru búin að vera í mörgum skólum og nefnir dæmi um barn sem var að koma í fimmta skólann sinn þegar það hóf nám í haust. Hann tali við alla nýja nemendur sem komi í skólann til þess að sjá og heyra hvernig þeir plumi sig. „Sumir taka með sér vanda á milli skóla og þá oft þessir sem eru á flakki. Einnig er stundum togstreita í kringum börn foreldra sem hafa skilið og foreldrarnir búa á sínum hvorum staðnum,“ segir Guðjón.  

Líðan birtist í hegðun

Erfiðustu málin segir Guðjón vera þegar vitað sé af því að ofbeldi þrífst á heimilum. „Slík mál tilheyra félagsmálayfirvöldum en við erum kannski þau fyrstu sem fáum vitneskju um málin. Bara að vita af því að það viðgengst og geta ekki farið á heimilin og lagað er erfitt. Það er fátítt en það þrífst samt,“ segir Guðjón. Það komi hugsanlega fram í hegðun barnanna og stundum leiti barnið til hans með stuðningi bekkjarfélaga sem hafi vit á því að hvetja til að segja frá eða koma sjálfir. „Oft er það besta upplýsingaveitan. Þau vita best um líðan og aðstæður félaga sína og eru ekkert að liggja á því. Til þess að eitthvað gerist verða þau að treysta einhverjum í skólanum.“

Langflest á góðu róli

Guðjón tekur fram að hann sé bundinn þagnarskyldu en sum mál séu samkvæmt lögum nauðsynlegt að segja frá. „Barnið þarf þá að vita að það sé til bóta að segja frá og samfélagið er orðið opnara þegar kemur að þessu. Almenningur og skólar eru meira á tánum.“ Hann tekur þó fram að langflest börn séu á góðu róli og margir áhugaverðir hlutir að gerast. „Það lyftir skólastarfinu að sjá árangur þess góða sem hefur verið gert í formi fræðslu og forvarna. Við sem sinnum þessu á Suðurnesjum hittumst töluvert á samtakafundum og berum saman bækur okkar. Yfirleitt komum við svo með ábendingar til sveitarfélaganna um hluti sem betur mættu fara,“ segir Guðjón að lokum.

VF/Olga Björt