Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Börn vilja læra - Leikskólinn Holt fagnar 25 ára afmæli
Sunnudagur 4. apríl 2010 kl. 12:56

Börn vilja læra - Leikskólinn Holt fagnar 25 ára afmæli

Þann 15. mars voru 25 ár liðin frá því að leikskólinn Holt hóf störf og var því fagnað með stórri afmælisveislu sama dag. Konur í Systrafélagi Njarðvíkurkirkju ákváðu að ráðast í byggingu leikskólans í Innri Njarðvík í maí árið 1978 og var verkið unnið að mestu leyti í sjálfboðavinnu, þar sem margir íbúar hverfsins komu að. Njarðvíkurbær lagði til eina milljón í upphafi byggingar. Á þessum tíma var Innri Njarðvík lítið hverfi með stórhuga íbúum, sem vildu hafa leikskóla, grunnskóla og almenna þjónustu á svæðinu. Það rættist með leikskólann en bíða þurfti tuttugu ár eftir grunnskólanum Akurskóla. Í dag hefur litla hverfið stækkað mikið og eru þar nú tveir leikskólar, Holt og Akur og 80 börn eru nemendur í stækkuðum leikskóla Holts en voru aðeins 40 í upphafi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún er þarna enn...


Kristín Helgadóttir er leikskólastjóri í Holti og hefur verið síðastliðin 17 ár. Elín Björk er aðstoðarleikskólastjóri og hefur starfað með Kristínu í fimmtán ár. En þær eru ekki elstu starfsmenn leikskólans því hér hefur Dagný Helgadóttir starfað í 22 ár. Það segir manni ýmislegt þegar fólk endist svona lengi á sama vinnustað. Við kíktum í heimsókn til þeirra stallsystra og gefum Kristínu leikskólastjóra orðið;


„Ég hóf störf hérna árið 1993 en þá var ég ákveðin í að stoppa hér stutt því mér fannst ég vera komin í sveit. Ætlunin var að leysa af sem leikskólastjóri í 6 mánuði en mér líkaði svo vel að hér er ég enn sautján árum seinna! Umhverfið í kring heillaði mig en hér er stutt í alla náttúru og við höfum móann allt í kringum leikskólann en hann er mikið notaður til að fylgjast með og skoða lífríki náttúrunnar. Í nálægð við okkur er lítil tjörn þar sem fuglar koma og eiga aðsetur og síðan erum við í göngufæri við fjöruna og þangað sækjum við einnig mikið með börnin. Það má segja að við séum með náttúruna hér í fóstri og áhuginn leynir sér ekki hjá börnunum. Við vinnum mikið úti og fjaran er t.d. endalaus uppspretta hugmynda og lærdóms. Við förum mikið í fjöruna fyrir neðan Hákot og einnig fyrir neðan Lágseyluna og því finnst okkur afar mikilvægt að bæjaryfirvöld varðveiti þessa staði og að ekki verði settur varnargarður þar fyrir,“ segir Kristín.

Skapandi leikskóli


Leikskólinn Holt er í dag rekinn eftir hugmyndafræði Reggio Emillia, sem kemur frá Ítalíu. Grunnurinn að hugmyndafræðinni er að öll börn séu skapandi einstaklingar. Það á að hlusta á börnin og bera virðingu fyrir skoðunum þeirra. Listræn sköpun er útgangspunktur fræðanna og býður sköpunin upp á innsæi, upplifun og skilning. Börnin fá að upplifa liti, form, tónlist, hreyfingu og takt. Endurvinnanlegt efni er mikið notað í leikskólastarfinu.


Einkunnarorð skólans eru gleði, virðing, sköpun og þekkingarleit. Umhverfisfræðsla er stór hluti kennslunnar og alveg í anda Reggio að vera með samfélagslegt verkefni fyrir börnin. Öll skilningarvit barnsins eru örvuð í leikskólanámi Reggio Emillia. Farið er í könnunarferðir út í náttúruna og skráð í mynd- og talformi það sem fyrir augu ber. Börnin ræða saman, velta fyrir sér og fá jafnframt tækifæri til að skapa það sem þau sáu með ýmsum hætti. Tjáning barnanna af upplifuninni gæti því birst í formi tónlistar, myndlistar og leiklistar þegar í skólann er komið.


Þegar barn byrjar í Holti þá koma foreldrar með í leikskólann í upphafi og fylgja barni sínu eftir í þrjá daga og eru hóparnir tvískiptir. Þetta hefur komið vel út og gefið foreldrum tækifæri á að kynnast mun betur innbyrðis og haft mjög góð áhrif á foreldrasamstarfið.
„Það skemmtilegasta við að vinna í anda Reggio er hvað það er lifandi, opið og skapandi. Börnin hafa sérlega gaman af starfinu okkar. Hér viljum við hlusta bæði á þarfir barna og starfsmanna. Við höfum þá trú að barnið sé getumikill einstaklingur og að það vilji læra. Hlutverk okkar er að nýta okkur forvitni barnsins. Sem kennarar erum við stuðningur þeirra og fyrirmyndir,“ segir Elín Björk, aðstoðarleikskólastjóri.




Allt annað uppeldisstarf í dag


Þegar gengið er inn á deildir í Holti þá tekur maður fyrst eftir því hvað börnin eru róleg og áhugasöm um það sem verið er að gera. Þennan dag var hópur barna að undirbúa afmælisveisluna í listasmiðjunni, með því að þvo borðin með sápusvampi og það fannst þeim gaman. Áður en þau hófu þvottinn ræddi kennarinn við þau um verkefnið framundan og hvort þau vildu hjálpa til við að gera fínt fyrir afmælið. Það vildu þau svo sannarlega. Þetta er einmitt útgangspunkturinn í Reggio starfinu að börn eru virkjuð í gegnum áhugasvið þeirra og að hlustað er á þau. Börn hafa gaman af ýmsum verkefnum, meira að segja þvotti.


„Leikskólastarf hefur þróast á mjög skemmtilegan hátt frá því að ég byrjaði að starfa í leikskóla fyrir 29 árum,“ segir Kristín. „Viðhorf til leikskóla hefur breyst mjög mikið og í dag hafa foreldrar meiri trú á að leikskólastarf sé mikilvægur þáttur í uppeldi barnsins og að nám fari þar fram. Hlutverk fullorðna fólksins er að örva börnin, kenna þeim á lífið og jafnframt læra farsæl samskipti við aðra. Börn og þarfir þeirra eiga að vera í forgangi í samfélaginu, hvort sem það er kreppa eða engin kreppa. Við þurfum alltaf að muna eftir að hlúa að börnum okkar og það þarf ekki að kosta neitt, bara meiri samvera með fjölskyldunni gefur börnum okkar mikið. Leikskólar standa vörð um fyrstu menntun barna okkar og því þarf metnaður allra að koma til. Hvert samfélag er ekki betra en það fólk sem þar býr,“ segir Kristín.


Reggio Emillia starf leikskólans að Holti hófst fyrir alvöru þegar skólinn var stækkaður árið 2002 en þá fengu starfsmenn að vera með í ráðum við hönnun húsnæðisins en það þótti þeim vænt um og hugsuðu allt nýja húsnæðið út frá skapandi starfi Reggio Emillia.


„Við viljum finna hæfileika barnanna og einnig starfsfólks því það skapar almenna gleði hjá öllum þegar okkur tekst að nýta það sem einstaklingnum finnst skemmtilegt að gera. Það er okkar niðurstaða. Þegar við virkjum hæfileika okkar þá erum við að tendra eldmóð og kraft innra með okkur og þá eru líka allir glaðir,“ segja þær Kristín og Elín Björk að lokum.


Leikskólanum Holti óskum við innilega til hamingju með afmælið og sérstakt hrós fær sá hópur Njarðvíkinga sem átti sinn þátt í að byggja húsnæði leikskólans fyrir 25 árum.