„Börn um víða veröld“ á Listahátíð barna í Reykjanesbæ
— Skessan í hellinum býður til fjölskyldudaga um helgina
Listahátíð barna í Reykjanesbæ verður sett með pompi og prakt í þrettánda sinn fimmtudaginn 26. apríl. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Duus Safnahús undirlögð
Duus Safnahús verða undirlögð undir listsýningar leik-, grunn- og listnámsbrautar framhaldsskólans sem hafa unnið hörðum höndum stóran part úr vetri að verkefnum sínum. Yfirskrift sýninganna í ár er Börn um víða veröld og hafa krakkarnir kafað ofan í viðfangsefnið og skoðað hvað það er sem er börnum um allan heim sameiginlegt. Hafa þau m.a. komist að því að þótt börn búi um margt við misjafnar aðstæður þá þarfnast þau öll fjölskyldu og ástvina og skjóls af einhverju tagi. Þá hafa öll börn ánægju af leik hvar í heimi sem þau eru staðsett.
Flottir fjölskyldudagar
Laugardaginn 28. apríl verður svo boðið upp á skemmtilegan fjölskyldudag á svæðinu í kringum Duus Safnahús með alls kyns listasmiðjum og uppákomum. Skessan í hellinum verður auðvitað í hátíðarskapi og hrærir í lummusoppu og býður gestum og gangandi upp á rjúkandi lummur og Sóla tröllastelpa spjallar við börnin og gefur þeim blöðrur. Auk þess verður hægt að taka þátt í ratleik, Sirkus Íslands kemur í heimsókn, skátarnir ætla að grilla pylsur, tívolítæki verða á staðnum og í lok dags verður sérstök gleðistund með dýrunum í Hálsaskógi.
Á sunnudag, 29.apríl, verður blásið til skemmtilegra fjölskyldutónleika með poppívafi í Stapa. Þar mun Tónlistarskóli Reykjanesbæjar í samstarfi við Magnús Kjartansson dusta rykið af gömlum og góðum barnalögum sem eiga rætur sínar að rekja til Suðurnesja með einum eða öðrum hætti en Magnús var öflugur þegar kom að útgáfu slíkrar tónlistar á árum áður m.a. í samstarfi við barnastjörnuna Ruth Reginalds. Magnús tekur þátt í tónleikunum sem þýðir bara eitt, að þetta verður stórskemmtilegt. Ókeypis aðgangur er á tónleikana og allir velkomnir.
Hæfileikahátíð grunnskólanna
Miðvikudaginn 9. maí fer svo fram Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa þar sem úrval stórglæsilegra árshátíðaratriða úr öllum grunnskólum bæjarins verða sýnd fyrir fullu húsi.
Ýmsir fleiri viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar sem stendur til 13. maí og má nálgast upplýsingar um þá á facebook síðunni Listahátíð barna í Reykjanesbæ og á vefsíðunni reykjanesbaer.is og vert er að geta þess að ókeypis er á alla viðburði.
Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.