Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 26. febrúar 2002 kl. 08:30

Börn hjálpa börnum 2002

Ágætu Suðurnesjamenn!
Sól hækkar á lofti , mars nálgast, það þýðir að nú förum við af stað með okkar árvissu söfnun hjá ABC hjálparstarfi. ABC er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988. Starfið er byggt á kristilegum grundvelli. Markmið þess er að veita hjálp sem kemur að varanlegu gagni með því að gefa fátækum börnum kost á skólagöngu og heimilislausum og munaðarlausum börnum kost á heimili. Í dag eru um 3300 börn sem fá hjálp í gegnum starf ABC. Undanfarin ár hafa íslensk börn sýnt hug sinn í verki með því að safna fé handa börnum í öðrum löndum sem búa við lakari lífsskilyrði. Söfnunin “ BÖRN HJÁLPA BÖRNUM “ á vegum ABC hjálparstarfs fer nú fram í fimmta sinn, nánar tiltekið 1.-23. mars næstkomandi.
Ár frá ári hefur fjölgað þeim grunnskólum sem taka þátt í söfnuninni. Börnin og kennarar þeirra hafa fengið upplýsingar um aðstæður barnanna á þeim stað sem safnað er fyrir. Hver skóli safnar í sínu hverfi eða sveitarfélagi. Götum er skipt niður á börnin sem safna. Þau fá sérmerkta bauka ásamt barmmerki til staðfestingar því að þau séu að safna í þágu ABC. Að þessu sinni er safnað til uppbyggingar á EL Shaddai barnaheimilinu. El Shaddai barnaheimilið er staðsett rétt fyrir utan borgina Madras á Suður-Indlandi. Það er alfarið byggt upp og rekið af Íslendingum gegnum ABC hjálparstarf. Þar eru hafnar framkvæmdir við rúmlega 1000 fermetra hús en 140 börn bíða eftir nýja húsinu. Á meðan búa þau við mjög bágbornar aðstæður, þurfa að sætta sig við að búa í alltof litlu húsi með stráþaki svo hvergi er skjól fyrir vatni þegar regntíminn stendur yfir. Í haust urðu flest börnin veik af kulda og vosbúð en þeim stendur auk þess hætta af eitruðum snákum og skordýrum sem leita inn í léleg hús. Búið er að steypa grunn, reisa burðarsúlur og setja þak á nýbygginguna. Veggir hafa verið hlaðnir að hluta til. Gert er ráð fyrir að það kosti sem svarar 5 miljónum íslenskra króna að loka húsinu með því að klára veggi og ganga frá pússningu, burðarsúlum þaki, dyrum og gluggum. Aðrar 7 miljónir þarf til að fullgera húsið með öllum innréttingum, raflögnum , pípulögnum, gólfefnum,vatnstanki og rotþró. Allt söfnunarfé í söfnunni BÖRN HJÁLPA BÖRNUM rennur óskert til uppbyggingar á El Shaddai heimilinu. Brýnt er að sem mest safnist. Auðvitað þarf að sjá til þess að börnin á heimilinu komist í boðlegt húsnæði. Þá hafa reglur verið hertar í landinu og yfir vofir hótun yfirvalda um að loka þeim heimilum þar sem hús eru með stráþaki.
Á síðasta ári, 2001, söfnuðust rúmar 5.8 miljónir á landsvísu og þess er skemmst að minnast hversu vel við Suðurnesjamenn stóðum okkur. Reykjanesbær var með mest söfnunarfé fyrir utan Reykjavík , kr. 374.430 og er það glæsilegur árangur. Hin sveitafélögin á Suðurnesjum stóðu sig ekki síður vel. Þá vorum við að safna fé fyrir skólabyggingu á Heimili Litlu Ljósanna á Indlandi. Ein af skólastofunum þar ber nafnið Reykjanesbær sem þakklætisvott fyrir frábært framlag ykkar! Þegar niðurstöður söfnunarinnar liggja fyrir mun ég gera grein fyrir þeim hér í blaðinu. Allir Grunnskólar á Suðurnesjum taka þátt í söfnuninni. Suðurnesjamenn, ég treysti því að þið takið vel á móti skólabörnunum þegar þau koma til ykkar á næstu dögum með baukana sína sem mörg hver leggja mikið á sig og eiga hrós skilið. Ég veit við getum gert enn betur. Gerum hlut okkar í ár enn glæsilegri en í fyrra! Baukar munu einnig liggja frammi í stofnunum og fyrirtækjum yfir söfnunartímann. Þegar niðurstöður söfnunarinnar liggja fyrir mun ég gera grein fyrir þeim hér í blaðinu.
Þeir sem áhuga hafa á nánari upplýsingum um ABC eða vilja taka að sér styrktarbarn geta haft samband við undirritaða eða skrifstofu ABC Hjálparstarfs Sóltúni 3 R.vík sími: 561 6117.

Bestu kveðjur og fyrirfram þökk fyrir stuðninginn.
María Magnúsdóttir
Fulltrúi ABC á Suðurnesjum.
Sími: 421 3842
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024