Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Borgarletinginn og sveitasæluseggurinn!
Laugardagur 21. júlí 2012 kl. 13:00

Borgarletinginn og sveitasæluseggurinn!

Ég er í fríi – sumarfríi og finnst það yndislegt. Er að reyna að vera meðvituð um að þrátt fyrir að það sé gott að skipta um umhverfi í fríinu þá er það ekki alltaf í boði og því mikilvægt að ná að slaka á hverjar svo sem aðstæður okkar eru. Ég hef stundum verið of upptekin af því að það megi gera ákveðna hluti heima við og allt aðra hluti í sveitinni eða útlöndum.

Ég skrapp til hennar rétt eftir hádegi um miðja síðustu viku. Leist ekkert á ástandið, heimilið á hvolfi, hún ótilhöfð, rúmin óumbúin, bíllinn skítugur í innkeyrslunni og fjölskyldan á náttfötunum um miðjan dag. Þau voru öll hálf sjúskuð og ef ég væri hún þá hefði ég ekki látið grípa mig á leið út með ruslið í þessari múnderingu. Börnin héngu í tölvum eða voru að glápa á video á meðan eiginmaðurinn lá með tærnar upp í loftið, órakaður og sveittur og réði krossgátu. Langaði mest að sparka í hann og benda honum á skítuga bílinn í innkeyrslunni. Ég gat ekki betur séð en að það væru nokkrar tómar léttvínsflöskur innan um annað drasl á eldhúsborðinu – pizzakassar og snakk í skálum. Ástandið minnti einna helst á daginn eftir gott partý – en ekki var minnst á neitt slíkt. Sagðist hafa verið niðri í bæ deginum áður, drukkið vín og skoða mannlífið, skroppið  á einhverjar sýningar og hangið svo á Austurvelli í sólinni. Það er örugglega eitthvað mikið að á þessu heimili – hún sagðist vera í sumarfríi og njóta þess í botn að gera sem minnst, en halló, þetta er nú aðeins of mikið af því góða. Hún bauð mér hvítvínsglas, spurði hvort ég væri nokkuð að flýta mér. Ég afþakkaði og var hálf miður mín þegar ég kvaddi þau einhverjum klukkutímum síðar, þar sem þau sátu eins og klessur í náttfötunum og sötruðu hvítvín á pallinum með óslegið grasið fyrir augunum.

Public deli
Public deli

Ég skrapp til hennar í Grímsnesið rétt eftir hádegi um miðja síðustu viku. Yndisleg sveitasælan umvafði mann strax og keyrt var inn í skóginn. Bústaðurinn var eins og búast má við þegar fólk er í fríi þar sem óumbúin rúm, tómar vínflöskur, matarleifar, snakkpokar, sælgæti og sætar kökur blöstu við manni. Fjölskyldan var í algjörri afslöppun og þrátt fyrir að ég kæmi við á þessum tíma voru allir enn í náttfötunum, annað hvort með tærnar upp í loftið að lesa einhverja bókina eða spjalla við kunningja á netinu og segja frá dásemdinni í sveitinni. Fjölskyldufaðirinn sat í makindum í lazyboy-stólnum og réði krossgátu og maður skynjaði friðsældina yfir þessum annars stressaða manni en á þessari stundu var eins og það rynni ekki í honum blóðið. Það var eitthvað ómótstæðilega krúttlegt við þau, hárið upp í loftið, stírur í augum, karlinn órakaður og allir í einhverju tímaleysi. Þau sögðust ætla að gera sem minnst, njóta þess að vera til, borða góðan mat, drekka gott vín og leyfa sér að slaka á. Svo greinilegt að þau kunna að njóta lífsins og ég var ekki lengi að þiggja næturgistingu. Ég kvaddi þau endurnærð daginn eftir, þar sem þau voru búin að koma sér makindalega fyrir í sólstólunum með vínglas sér við hönd  og sagðist vera stolt af því að þekkja fólk sem kynni að slaka á og njóta lífsins eins og þau.

Sama myndin – sitthvor gleraugun. Er ákveðin í að njóta frísins eins og ég get miðað við það sem ég hef og leiðrétta þá hugsanavillu að sumarfrí sé ekki gott frí nema þú farir sem lengst frá heimilinu.  Ekki örvænta þó þið sjáið mig á náttfötunum úti í búð, útþanda með stírur í augunum, matarklessur framan á bringunni, snúast um sjálfa mig, algjörlega ómeðvituð um hvað ég er að gera þarna. Það þýðir einfaldlega að ég er alveg að ná þessu – heima og að heiman!!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid