Borgarkvartettinn á Suðurnesjum
Þriðjudagskvöldið 4.júní næstkomandi, mun Borgarkvartettinn leggja Reykjanesbrautina undir fót og halda tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju kl.20.00. Þeir félagar hafa sungið víða undanfarin tvö ár og eru um þessar mundir á tónleikaferð um landið. Þess má geta að þeir komu m.a. fram á árshátíð starfsmannafélags Reykjanesbæjar s.l. vetur og var góður rómur gerður að söng þeirra þar.Borgarkvartettinn, skipa Þorvaldur Halldórsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Ásgeir Páll Ágústsson og Atli Guðlaugsson. Efnisskráin er fjölbreytt og samanstendur af lögum úr söngleikjum, dægurlögum og ýmsum klassískum smellum sem allir eiga það sameiginlegt að passa vel inn í efnisskrá sem hefur það að markmiði að gleðja landann. Agnar Már Magnússon píanóleikari er undirleikari þeirra drengja og gestasöngvari á tónleikunum er Kristjana Helga Thorarensen. Miðasala er við innganginn og eru allir hjartanlega velkomnir.