Borgarbarnið ánægt í bítlabænum
Þórdís Ósk Helgadóttir tók við nýju og umfangsmiklu starfi sem forstöðumaður Súlunnar í vaxandi bæjarfélagi, Reykjanesbæ. Er einstæð móðir og hafði varann á sér þegar hún sótti um starfið en er alsæl í bítlabænum.
„Þegar ég fékk þetta starf var ég með einhverja hugmynd um hvað ég væri að fara út í en ég þekkti þetta ekki alveg nógu vel. Ég get ekki sagt að ég hafi verið með mjög mikla þekkingu á svæðinu en upplifunin hefur verið alveg yndisleg. Reykjanesbær hefur komið skemmtilega á óvart, að koma og taka þátt í samfélaginu,“ segir Þórdís Ósk Helgadóttir en hún er forstöðumaður Súlunnar sem er ný skrifstofa undir stjórnsýslusviði Reykjanesbæjar.
„Við vinnum með ýmis málefni en þau eru atvinnuþróun, markaðsmál, ferðamál, menningarmál og svo erum við einnig verkefnastofa. Við erum að innleiða aðferðafræði verkefnastjórnunar inn í stjórnsýslu sveitarfélagsins,“ segir Þórdís þegar við spyrjum út í hvað Súlan standi fyrir í Reykjanesbæ.
Á undanförnu árum hefur Reykjanæsbær vaxið hraðast og mest allra sveitarfélaga á Íslandi. Þórdís tekur undir það og segir að það hafi verið áskorun fyrir bæjarfélagið.
„Þetta er búið að vera fordæmalaus stækkun, mikil fólksfjölgun í bænum og við þurfum að huga að stýringu á okkar verkefnum og sjá til þess að við náum sem mestri hagræðingu, hvort sem á við um tíma, kostnað eða gæði. Það skiptir máli fyrir stjórnsýsluna að rétt stýring verkefna eigi sér stað og einnig að við skrásetjum alla þekkingu sem hægt er að nýta í framtíðinni. Þannig að það er mikið verk fyrir höndum hérna hjá verkefnastofunni okkar, að innleiða þessa aðferðafræði og efla okkar starfsfólk í verkefnastýringu.“
- Hvernig hefur það gengið svona hingað til?
„Við erum á fyrsta stigi og erum búin að móta verkefnahandbók sem er leiðarkerfi fyrir okkar starfsfólk til að fylgja. Hún er í innleiðingarfasa núna. Fljótlega munum við hefja kynningu á bókinni og þá ákjósanlega verkferla við verkefnastýringu.“
– Atvinnumálin hafa verið mest í umræðunni undanfarin tvö ár á Suðurnesjum, ekki síst þegar atvinnuleysi fór í hæstu hæðir í heimsfaraldri. Hvernig birtist þetta ykkur í Súlunni?
„Við lítum náttúrlega á þetta sem tímabundið ástand, covid er að herja á alla um allan heim. Við erum að undirbúa okkur fyrir það tímabil þegar við getum hafið aftur venjulegt líf. Markmið okkar er að vinna að undirbúningi t.d. stefnumótunarvinnu þannig að við séum tilbúin þegar allt fer aftur á stjá. Einnig erum við að taka þátt og nýta þau úrræði úr atvinnuátakinu sem ríkið býður uppá. Þetta er tækifæri fyrir okkur að veita fólki vinnu og vinna að þeim verkefnum sem ekki hefur gefist tækifæri til. þá á ég við „hefjum störf“ átakið og „starf með styrk“. Einnig úrræðin fyrir ungmennin okkar í sumar en við fengum úthlutað 265 stöðugildi fyrir námsmenn sem við ætlum algjörlega að nýta. Við höfum hafið samantekt á störfum fyrir „hefjum störf,“ þar sem við ráðum einstaklinga til starfa og fáum styrk á móti frá Vinnumálastofnun. Þetta er allt að hefjast og vonandi getum við útvegað mörgum aðilum vinnu í bráð.“
Sumarstörf fyrir alla
– Þið voruð með fjölmörg ungmenni í nýjum störfum í fyrra, svo þið eruð búin að fá nasaþefinn af því, gekk það vel?
„Það gekk alveg gríðarlega vel. Við fengum úthlutað 307 störfum í fyrra, við náðum að bjóða öllum okkar ungmennum starf, sem er alveg frábært. Við stefnum á það aftur í ár og það lofar góðu – nú erum við ekki að gera þetta í fyrsta skipti. Við höfum smá reynslu af þessu, svo þetta er aðeins smurðara ferli heldur en var.
Þið getið nánast búið til endalaus störf hér um bil, er það ekki?
„Við gerum þetta ekki ein, við þurfum aðstoð og við hvetjum alla til að nýta sér þessi úrræði, sérstaklega fyrirtæki hérna í samfélaginu okkar. Ef þau hafa tök á að ráða þá er um að gera að nýta sér þetta. Sveitarfélagið stefnir á að nýta úrræðið „hefjum störf“ þar sem mótuð eru mismunandi störf sem atvinnuleitendur sem hafa verið 24 mánuði á atvinnuleysisskrá eða lengur geta sótt um. Sama úrræði er í boði fyrir fyrirtæki með smávægilegum breytingum en þá þurfa atvinnuleitendur að hafa verið tólf mánuði á skránni. Einnig eru til úrræði fyrir atvinnuleitendur til að ráða fólk til starfa sem hefur verið atvinnulaust í styttri tíma, allt niður í einn mánuð en er þá í kjölfarið lægra mótframlag frá vinnumálastofnun en „hefjum störf“. Þetta eru mjög góð úrræði.“
– Það hefur margt óvænt gerst á síðustu tveimur árum eða um það bil frá þeim tíma þegar þú tókst til starfa.
„Jú og þá var allt í nokkuð mikilli sveiflu nema smá niðursveifla byrjuð í tengslum við Wow flugfélagið, því allt í tengslum við flugið hefur áhrif á Suðurnesin. Þetta er búið að vera ævintýralegur tími síðan ég flutti.“
Ótrúleg upplifun
Þórdís játar því aðspurð að það hafi verið miklar áskoranir í starfinu undanfarin tvö ár.
„Já, þetta er búin að vera alveg ótrúleg upplifun, ég verð nú alveg að segja það. Fall Wow hafði strax mikil áhrif á atvinnustigið þegar ég var að koma inn í nýtt samfélag, umhverfi og nýtt starf. Stuttu eftir kemur Covid. Þetta var mjög krefjandi en mjög áhugavert. Bjartsýnin, þrekið og krafturinn í starfsfólkinu hérna er aðdáunarverður. Allir halda áfram þótt mótvindurinn sé mikill. Það er magnað að fá að upplifa svona umhverfi á þessum tímum.“
– Þannig að þú telur að það séu allir búnir að læra margt í kófinu?
„Algerlega og það er margt sem við erum búin að upplifa sem við erum að nýta okkur núna, sem við sjáum styrkleika í og viljum gjarnan halda áfram með í okkar starfsemi. Við sjáum fullt af tækifærum í þessari þróun sem hefur átt sér stað.“
– Hvernig var fyrir nýbúa að koma til Reykjanesbæjar?
„Það var upplifun en ég er fædd og uppalin í Reykjavík, er borgarbarn. Ég bjó úti í Danmörku í átta ár svo ég er vön flutningum. Mér finnst gaman að prófa nýja staði og taka við nýjum áskorunum. Þegar ég fékk þetta starf var ég með einhverja hugmynd um hvað ég væri að fara út í en ég þekkti bæinn ekki alveg nógu vel. Get ekki sagt að ég hafi verið með mjög mikla þekkingu á svæðinu en upplifunin hefur verið alveg yndisleg og hefur komið skemmtilega á óvart. Mér finnst allir vera mjög hjálpsamir og taka nýbúum eins og mér mjög vel. Mér finnst mjög gott að búa hérna og við tvö, ég og fjögurra ára sonur minn, erum mjög ánægð og líður vel.
Gott að búa í Reykjanesbæ
- Hvernig er að vera með lítið barn í Reykjanesbæ?
„Það er yndislegt, leikskólinn kemur á óvart, alveg frábær starfsemi þar, og mun meiri heldur en ég hef upplifað á öðrum stöðum. Ég hef oft að heyra að Reykjanesbær sé svo langt í burtu frá borginni – en mér finnst við vera svo þægilega langt í burtu. Það er mikill munur á traffíkinni hér og í borginni og einnig þegar það er gott veður, þá er mun meiri mengun í Reykjavík. Þegar maður kemur hingað suður með sjó er maður kominn í ró. Það er greinilega mjög vinsælt að flytja hingað því það hefur verið mikil fólksfjölgun og það er ástæða fyrir því. Það er gott að vera hérna og í raun allt til alls.“
– Heldur þú að það muni gerast eitthvað stórt núna þegar kófinu fer að ljúka og ferðamenn frá útlöndum fara að koma og sækja gosið heim til dæmis? Við getum sagt að eldgosið sé einn lítill lottóvinningur fyrir svæðið.
„Já, ég held að það sé alveg tækifæri fyrir okkur að nýta okkur þennan frábæra bakgarð sem við höfum á þessari stundu en eins og ég segi, Reykjanesið er svo miklu meira en bara eldgosið, það hefur alltaf verið mjög fallegt umhverfi hérna. Nú er bara kominn auka plús sem er eldgosið okkar.“
– Þannig að þú ert, þrátt fyrir nokkuð erfiða stöðu á svæðinu, bjartsýn á framtíðina hérna.
„Já, hérna eru bara tækifæri. Ótrúlega flott tækifæri og við ætlum að nýta þau öll. Við erum mjög spennt fyrir framtíðinni og sjáum tækifæri á hverju einasta götuhorni hérna.“
– Hvað myndir þú segja, ung kona í framlínustarfi í Reykjanesbæ, fjórða stærsta sveitarfélagi landsins, hvaða hugmyndir hefur ungt fólk sem er að flytja inn í svona sveitarfélag eins og Reykjanesbæ? Er það með aðrar væntingar heldur en fyrir tuttugu árum síðan? Eru hlutirnir búnir að breytast mikið?
„Ég get náttúrulega ekki borið það saman við síðustu tuttugu ár því ég er svo nýkomin á svæðið en ég held að við sjáum tækifæri til umbóta, til dæmis eins og að auka fjölbreytileika í atvinnutækifærum á svæðinu. Það er margt í boði hérna fyrir ungmenni. Við viljum einnig efla menninguna, þennan bæjarbrag, þannig að það er ýmislegt sem við getum gert sem við myndum vilja vinna áfram með og þyrftum alltaf að fá íbúa með okkur í þessa vinnu.“
– Sérðu fyrir þér meira samtal við íbúa? Að þeir láti meira í sér heyra gagnvart ýmsum málum?
„Já, um að gera. Við erum komin með heimasíðuna, Betri Reykjanesbær, þar sem við erum að opna á samtalið. Þar er tækifæri fyrir fólk til að koma sínum skoðunum á framfæri og láta okkur vita hvað við getum gert betur. Við hvetjum bæjarbúa að nýta þá heimasíðu því við fylgjumst með þar, en síðan er auðvitað skrifstofan okkar alltaf opin og allir velkomnir þangað og ræða við okkur um ýmis málefni.“
Menning og listir í bítlabænum
– Menning og listir er eitt af því sem þið eruð að leggja áherslu á í sveitarfélaginu, er það ekki?
„Jú, meðal annars. Við erum með mjög framsæknar menningarstofnanir í bænum. Í Duus húsum eru helstu sýningarsalir hjá listasafninu og byggðasafninu. Við leggjum ríka áherslu á allar menningarstofnanir bæjarins, við erum auðvitað líka með Hljómahöllina og bókasafnið. Svo höfum við menningarfulltrúa sem sér um allt viðburðahald í bænum. Þetta eru margir sterkir aðilar sem eru að gera mjög góða hluti hér hjá bænum og viljum við öll efla menningu, því eins og við vitum hefur menning áhrif á lýðheilsu okkar allra. Það er einmitt það sem við tökum föstum tökum á í menningarstefnunni okkar. Við vorum sem sagt að uppfæra vinnu sem var gerð 2018 og erum núna komin með mjög flotta menningarstefnu sem var samþykkt nýlega og er til næstu fimm ár.“
– Er einhver sérstök áhersla í þessari menningarstefnu?
„Við erum að aðlaga hana að stefnu bæjarins þar sem við tengjum menninguna við sex áhersluþætti hennar. Þar er farið yfir lýðheilsu íbúa, atvinnumálin, fjölbreytileika og ýmis önnur málefni. Menning nær að snerta alla þessa fleti. Áhersluþættirnir eru mjög margir og fjölbreyttir enda erum við að vinna undir kjörorði bæjarins sem er „í krafti fjölbreytileikans.“ Það er það sem við viljum vera. Við viljum vera með flotta sérstöðu í fjölbreytileikanum og erum mjög hreykin af því.“
– Þannig að vera með fjölbreytta flóru af menningu, listum og íþróttum fyrir bæjarbúa?
„Eitthvað fyrir alla já og við viljum skara fram úr í því sem við gerum. Við erum búin að vera mjög dugleg í Covid í rafrænni menningarmiðlun. Það hafa verið margar hindranir á Covid tímum með samkomutakmarknir í að miðla menningu en við höfum verið dugleg að nýta okkur samfélagsmiðla og vefsíður og höfum til dæmis verið með listamannaspjöll og tónleikahald í myndbandsformi og streymi. Við höfum reynt að nýta öll þau verkfæri sem við höfum.“
– Er þá ekki tilvalið að við endum á því að þú svarir spurningunni um Ljósanótt? Það eru miklar líkur á að það verði hægt að halda alvöru Ljósanótt?
„Já, við allavega gerum ráð fyrir því. Við undirbúum hana þannig að hægt verði að halda hana að venju, eins stóra og hún er, en við verðum líka að passa okkur og fylgja þróuninni sem mun eiga sér stað. En eins og staðan er í dag þá erum við að undirbúa hana eins og við erum vön að gera.“
Snúum umræðunni við
– Það hefur stundum verið talað um að það vanti upp á ímynd Suðurnesja og Reykjanesbæjar sem gekk náttúrulega í gegnum mikla fjárhagserfiðleika. Það var óhætt að segja að ímyndin hafi ekki verið góð, sérstaklega þá og reyndar oft áður. Varstu með einhverjar neikvæðar hugmyndir um svæðið og bæjarfélagið áður en þú ákvaðst að sækja um þetta starf?
„Ég verð náttúrulega að viðurkenna að maður hafði heyrt svolítið neikvætt af þessu svæði, Suðurnesjum, sem kemur verulega á óvart eftir að maður flutti hingað. Ég get alveg viðurkennt það, ég var með pínu fordóma og var kannski svolítið með varann á þegar ég kom. En ég ætlaði að leggja mig alla í þetta og ég gat ekki hugsað mér að taka við þessu starfi nema að flytja hingað og upplifa menninguna sjálfa og eftir að ég hef kynnst samfélaginu er ég ekki alveg að átta mig á hvaðan þessi neikvæðni kemur. Það er eitthvað sem við þurfum að snúa við og sérstaklega varðandi veðrið, það er bara mjög gott veður hérna!“
– Þannig að þetta er kannski eitthvað sem sveitarfélagið getur hugsað um. Að það þarf kannski bara að benda á hvað það er margt gott á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ.
„Já og við sem íbúar bæjarins eigum að vera stolt og monta okkur svolítið af svæðinu. Út af því að það er ekkert sem vantar upp á. Við erum með magnaða náttúru sem ekki nógu margir vita af og fleiri ættu að koma og sjá, þá átta þeir sig á því hvað það er frábært og fallegt umhverfi hérna.“
Hver er Þórdís Ósk?
Fædd í Reykjavík 5. des. 1982.
Sonur: Garðar Flóki Matthíasson, fjögurra ára.
Uppalin í Grafarvogi en á ættir að rekja til Siglufjarðar, Bolungarvíkur, Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri. Ólst upp með einni systur og tveim bræðrum en eldri bróðir hennar féll frá í byrjun árs 2021.
Hefur alltaf verið ævintýragjörn, glaðlynd metnaðarfull og félagslynd. 2004 flutti hún til Danmerkur 22 ára í nám. Hún kláraði þar háskólanám í innanhússhönnun, viðskipta- og markaðsfræðum og sótti seinna meir meistaranám í verkefnastjórnun sem hún kláraði árið 2019 í Háskóla Íslands. Hún er einnig með D vottun í verkefnastjórnun.
Þórdís bjó í Danmörku í átta ár en þar kláraði hún BA nám sitt og hóf síðan störf í Boconcept sem sölufulltrúi. Það leið ekki á löngu þegar hún var farin að stýra innanhús deildinni í stærstu Boconcept verslun landsins. Á þeim stutta tíma sem Þórdís var í Boconcept trónaði hún á toppnum sem söluhæsti sölumaður Danmerkur flesta mánuði í starfi og náði m.a. að vera söluhæst í allri BoConcept keðjunni, um 250 búðir um allan heim.
Starfaði hjá NordicVisitor sem sölufulltrúi og vann þar við að selja ferðir til ferðamanna sem sóttu í íslenska náttúru.
Starfaði hjá Syrusson og öðlaðist margþætta reynslu á verkefnastjórnun, ráðgjöf, hönnun og framleiðslu.
Fór í bakpokaferðalag til Asíu ein. Spila blak, æfi líkamsrækt, er í söngnámi í tónlistarskólanum og er að byrja í golfi.