Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Borgaraleg ferming nýtur æ meiri vinsælda
Frá borgaralegri fermingu Siðmenntar á Suðurnesjum.
Laugardagur 1. apríl 2023 kl. 06:39

Borgaraleg ferming nýtur æ meiri vinsælda

Borgaraleg ferming á vegum Siðmenntar er valkostur fyrir þau fermingarbörn sem vilja ekki fermast innan kirkjunnar, en í þeim hópi hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Siðmennt hefur verið með borgaralegar fermingar frá árinu 1989 en byrjaði með fræðslu og athafnir á Suðurnesjum árið 2015. Um 15-30 börn hverju sinni hafa valið þessa leið á Suðurnesjunum síðan þá, en í ár eru 20 börn frá öllum sveitarfélögum svæðisins að fermast borgaralega í athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þann 16. apríl.

Valgerður Björk Pálsdóttir er leiðbeinandi hjá Siðmennt.

Fermingarfræðsla Siðmenntar er með fjölbreyttu sniði en hægt er að velja um vikulega fræðslu á höfuðborgarsvæðinu, einnar-helgar námskeið á Úlfljótsvatni og tveggja helga námskeið í Reykjanesbæ. Að sögn Valgerðar Bjarkar Pálsdóttur leiðbeinanda hjá Siðmennt fer fræðslan fram á nútímalegan hátt en lagt er upp með að því styrkja sjálfsmynd barnanna, hvetja til víðsýni og styðja við uppbyggilegt hugarfar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Notast er við fjölbreytta kennsluhætti í fermingarfræðslunni en nýlega hafa 20 börn lokið fermingarfræðslu á vegum Siðmenntar sem haldin var fyrstu helgarnar í febrúar og mars í Keili á Ásbrú. Stuðst er við húmaníska námskrá og viðfangsefnin tekin fyrir með heimspekilegum umræðum, leikjum og æfingum. „Viðfangsefnin sem við tökum fyrir heita Loforðin 10 og í þeim eru m.a. gagnrýnin hugsun, samkennd, umhverfisvernd, ábyrgð, siðferðisþroski, hnattræn hugsun, friður og félagslegt réttlæti. Börnin ræða málin saman í litlum og stærri hópum, farið er í ratleik og íþróttakeppnir og einnig er hluti kennslunnar byggður á glærusýningum sem eru þó aðeins meira lifandi en glærusýningar í hefðbundinni kennslu,“ segir Valgerður Björk.

Fermingafræðsla Siðmenntar er opin öllum ungmennum á aldrinum þrettán til fimmtán ára og er óháð uppruna, kyni, kynhneigð, trú eða lífsskoðunum. Hvorki ungmennin né foreldrar þeirra þurfa að vera skráð í Siðmennt til að fermast borgaralega.