Mannlíf

Borðar hnetusteik og skellir sér í heita pottinn
Laugardagur 27. desember 2014 kl. 06:00

Borðar hnetusteik og skellir sér í heita pottinn

Kjartan Már bæjarstjóri Reykjanesbæjar í jólaspjalli

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar gæðir sér á heimagerðri hnetusteik um jólin. Þau hjónin hafa fengið góða vini í heimsókn í 31 ár á jóladag, þar sem tekið er í spil og jólunum fagnað. Kjartan skellir sér svo yfirleitt í heita pottinn á aðfangadag eftir heimsókn í kirkjugarðinn.

Eru einhverjar hefðir hjá ykkur á bæjarskrifstofunni þegar kemur að jólunum?
Já, ég er smátt og smátt að læra á þær. Starfsfólk skreytir sjálft sínar skrifstofur, mismikið þó, en á bókasafninu og þjónustuverinu á jarðhæð Ráðhússins setjum við upp fullskreytt jólatré til að skapa rétta andann fyrir þá fjölmörgu sem leggja leið sína í þangað á hverjum degi. Við setjum jólaljós í gluggana og pössum að hafa þau tilbúin, áður en kveikt er á jólatrénu frá vinabænum Kristiansand á Ráðhústorginu, svo nánasta umhverfi trésins sé sem hátíðlegast.
Í Ráðhúsinu starfa um 70 starfsmenn á ýmsum sviðum og skipar hvert svið 1 fulltrúa í skemmtinefnd sem stendur fyrir alls kyns uppákomu yfir árið. Á Aðventunni stendur skemmtinefndin fyrir rauðum degi, þar sem allir eiga að koma í einhverju rauðu, jólapeysudegi o.fl. í þeim dúr. Síðan borðum við saman jólamat í mötuneytinu að kvöldi dags þegar líður nær jólum og í ár ætlar hún Angela okkar, sem rekur Ráðhúskaffi og er frá Portúgal, að sjá um að elda fyrir okkur saltfisk að hætti Portúgala en það er vinsæll jólamatur í heimalandi hennar. Síðast en ekki síst munu svo starfsmenn Reykjanesbæjar fjölmenna á samverustund í Keflavíkurkirkju þar sem við munum m.a. styrkja Velferðarsjóð Suðurnesja með peningaframlagi sem nemur sömu upphæð og kostað hefði að senda öllum starfsmönnum Reykjanesbæjar hefðubundið jólakort. Í staðinn fá þeir rafræna jólakveðju. Að lokum er rétt að taka fram að bæjarskrifstofurnar verða lokaðar að morgni Aðfangadags og Gamlársdags og einnig 2. janúar á nýju ári en sú hefð hefur skapast að nota þann dag til þess að taka til og gera upp ýmis mál; nokkurs konar vörutalning.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvernig eru jólahefðir hjá þér?
Jólahefðir hjá mér og mínum eru nokkrar. Við förum í kirkjugarðana á Aðfangadag og svo í heita pottinn þegar við komum heim. Síðan hefst eldamennskan og síðustu árin höfum við verið með heimagerða hnetusteik ásamt kalkúnabringum í matinn. Börnin eru farin að heiman en skiptast á að vera hjá okkur á Aðfangadagskvöld og þá auðvitað með afastrákana. Þeim fylgja margir pakkar og því oftast mikið stuð fram eftir kvöldi. Jóladagur er yfirleitt rólegur en stundum hittist stórfjölskyldan og þá er glatt á hjalla. Að kvöldi Jóladags fáum við svo yfirleitt okkar nánustu vini í heimsókn, tökum í spil og fögnum hátíðinni á hefðbundin hátt, en sú hefð skapaðist fyrir 31 ári þegar við urðum fyrst af vinahópnum til þess að eignast barn og þá lá beinast við að hafa jólapartýið heima hjá okkur Jónu.

Hver er besta jólamyndin?
Ætli það sé ekki "Christmas Vacation" með Griswold fjölskyldunni. Hún toppar allt.

Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
"The Christmas song" eftir Bob Wells og Mel Tormé. Íslenska útgáfan af því lagi heitir "Þorláksmessukvöld".  Af íslenskum lögum finnst mér lagið "Gleði og friðarjól" eftir Magnús Eiríksson ómissandi hluti af jólastemningunni.

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Nei í rauninni ekki annað en það sem ég sagði hér að framan um jólahefðir. Ég reyni nú bara að hafa það náðugt, borða mátulega mikið og lesa góðar bækur.

Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Eins og ég sagði hér að framan förum við í kirkjugarðana og í heita pottinn að deginum. Við förum líka alltaf í kirkju, stundum kl. 18 og stundum kl. 23:30 eftir því hvort hentar betur í það og það skiptið.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ætli það sé ekki hjólið sem ég fékk þegar ég var 11 ára. Amerískt chopper hjól, grænt með háu stýri, löngum glimmer hnakki og breiðum dekkjum.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Heimalöguð hnetusteik að hætti Jónu og samkvæmt uppskrift Péturs Péturssonar, matreiðslumanns, og kalkúnabringur.

Eftirminnilegustu jólin?
Ætli það séu ekki jólin 2009. Þá var Kristófer Orri, eldri afastrákurinn okkar, nýfæddur og Jóna í strangri lyfjameðferð. Það var því mikið tilfinningarót í gangi þau jólin.

Hvað langar þig í jólagjöf?
Þegar fólk er komið á miðjan aldur held ég að flestir séu hættir að hugsa um harða eða mjúka pakka. Þá snúa óskir og vonir meira í átt að heimsfriði, góðri heilsu og að eiga sem flestar samverustundir með sínum nánustu. Ef ég næ að hitta mína nánustu hressa og káta um jólin þarf ég ekki annað. Jú, kannski eina góða bók.

Borðar þú skötu?
Ég hef smakkað skötu en get alveg verið án hennar. Ég fór nokkur ár í röð í skötuveislur í hádeginu á Þorláksmessu en hef ekki farið sl. 6 ár. Það segir allt.

Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Bara eins og hjá flestum held ég, ljúka við jólagjafakaup, fara niður í bæ að kvöldi og upplifa stemninguna á Hafnargötunni og reka svo inn nefið í einn kaffi hjá vinum og kunningjum.