Borðaði skessan rúgbrauð og bakaðar baunir?
Í blíðviðrinu í gær mátti heyra miklar drunur í hellisskútanum við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Drunurnar heyrðust víða um bæinn og líktust helst þrumuveðri. Þegar betur var að gáð reyndust óhljóðin hins vegar koma frá skessunni sem hefur búið sér bústað við smábátahöfnina.
Þetta voru því ekki þrumur, heldur bæði prump og rop. Ástæðuna mátti líka sjá í ruslatunnum á svæðinu sem voru fullar af dósum undan bökuðum baunum og rúgbrauðendum.
Það voru greinilega fleiri en útsendari Víkurfrétta sem heyrðu búkhljóðin frá skessuhellinum um allan bæ, því stöðugur straumur fólks á öllum aldri var að heimili skessunnar.
Börnunum stendur ekki öllum á sama um skessuna, þrátt fyrir að hún sé hinn mesti vinur barnanna og geri engum mein.
Í skessuhellinum er líka stór sparibaukur þar sem börn og fullorðnir geta sett í pening sem Sparisjóðurinn mun svo margfalda og styrkja börn sem eiga bágt.
Á efstu myndinni má sjá unga dömu setja nammipeningana sína í baukinn góða.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Skessan í hellinum á alveg risastórt rúm sem hún Birta María prófaði að setjast upp í.
Það var fallegt um að litast utan við heimili skessunnar í gær. Spegilsléttur sjórinn og alls ekki veður fyrir þrumuveður, enda kom í ljós að lætin sem heyrðust frá hellinum voru meira svona prump og rop.