Borð fyrir tvo
Inni í eldhúsi rís matráðungur undir nafni og flamberar afurðir íslenskrar náttúru. Ilmurinn líður um ganga veitingastaðarins um leið og þjónar þess ganga með bros á vör á milli borða. Hnarreistir, öruggir og þægilegir. Það er raki í lofti úti fyrir og hryssingsleg norðangolan gælir við gluggana. Andstætt vetrarríkinu utandyra brakar í glóðum innandyra, sem ylja og fanga augu gesta. Fínpússaðar gamlar skreiðartrönur skreyta veggi setustofunnar og umhverfið neðanþilja marrar af niðjum forfeðranna.
Húsgögnin eru líkust útstillingu úr Góða hirðinum og fiskroð úr laxa- og silungastofnum landsins þekja birtu ljóssins á burðugum veggjum. Matborðin flest áferðafallegar viðarþiljur og sum þeirra útskorin úr áratuga gömlum trjástofnum svo hægt er að telja hringina. Yfir þeim hanga útboraðir steypukjarnar og taka sér stöðu ljúfrar birtu. Lýsingin reyndar í öllum regnbogans afbrigðum sem gefa tóninn um það sem koma skal. Gólffjalir eru máðar og engu líkara en þær hafi marað í hálfu kafi þarafjöru og verið dregnar á þurrt á þorra. Stuðlaberg og aðrar bergtegundir rísa eins og tignir gestir á fögrum og styrkum stoðum umhverfisins. Húsið sjálft ber þó greinileg einkenni judendstílsins.
Á matseðlinum er flóra íslenskra afurða sem fengnar eru beint frá býli. Mjólkur-, osta- og skyrbændur, sauðfjárræktendur, hunangs- og lynghænubændur þessa lands hjálpa til við að fóðra búrið að ógleymdu fiskmetinu úr Ægisheimum. Lynghænur og kjötdúfur koma úr Ásgarði, mitt á milli Garðs og Sandgerðis. Útverðir okkar á norðanverðu Reykjanesi. Gleðilegt til þess að vita að hér er ræktun í handarjaðrinum, sem gefur framvörðum matargerðar tækifæri á að bjóða okkur upp á hefðbundna íslenska matargerð með óvæntu og nútímalegu ívafi. Framborið á steinhellu eða á annan framandi hátt. Góðmetið rennur ljúfar niður þannig.
Það brakaði hæfilega í hurðinni á salerninu þegar ég opnaði, eins og verið væri að senda skilaboð að handan. Mér brá við steinaldarlegum aðbúnaði við handþvottinn enda engu líkara en jökulvatnið rynni úr greipum jötunhramma í lindarskál. Mig langaði helst að hraða mér út úr ljósi litbrigðanna og láta sem ég hafi ekki séð þetta fyrir mér. Ég leit í spegil og spurði sjálfan mig hvort ég hefði farið á mis við eitthvað. Mér varð orðfátt en harðákveðinn að láta vita að höfuðborgarbýlið Lækjargata 2A er undur, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.