Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 4. febrúar 2000 kl. 12:38

Bólusetningar

Í janúar var gerð breyting á bólusetningu barna á Íslandi. Helstu breytingar eru þær að sprautum mun fækka og tekið verður í notkun nýtt svokallað frumulaust kikhóstabóluefni sem hefur mun minni aukaverkanir í för með sér en það sem hingað til hefur verið notað. Þá hefur verið ákveðið að bæta við kikhóstabólusetningu við 5 ára aldur með það að markmiði að draga enn frekar úr fjölda sjúkdómstilfella af völdum kikhósta. Ástæðan fyrir því að 5 ára börn verða nú bólusett gegn kikhósta er að rannsóknir hafa leitt í ljós að börn 5 ára og eldri geta smitast af kikhósta án þess þó að verða mikið veik. Hins vegar geta þau smitað yngstu börnin undir 3 mánaða aldri sem eru óvarin. Kikhóstinn er einmitt hættulegur þessum yngstu börnum. Þar sem nýja bóluefnið gegn kikhósta veldur litlum aukaverkunum er nú mögulegt að bólusetja 5 ára börn. Hvers vegna bólusetning? Allir þessir sjúkdómar sem bólusett er gegn, hafa valdið miklum vanda. Þeir valda þó misalvarlegum veikindum. Margir þeirra eins og rauðir hundar, lömunarveiki og sjúkdómar af völdum Haemofilus influenzae bakteríu (Hib), hafa valdið alvarlegum fylgikvillum eins og fósturskemmdum, lömunum og skemmdum á miðtaugakerfi. Hettusótt getur valdið heilahimnubólgu, heyrnarskemmdum og bólgum í eistum sem getur haft ófrjósemi í för með sér. Sumir þessara sjúkdóma áttu stóran þátt í ungbarnadauða fyrr á 20. öldinni einnig barnaveiki, mislingar og kikhósti. Árangur Íslendinga af bólusetningum er með miklum ágætum og má þakka það almennri þátttöku nánast allra barna í þeim. Með samstilltu átaki Alþjóðaheilsustofnunarinnar er sá merki áfangi að nást, með bólusetningum allra barna heimsins, að mænusótt eða lömunarveiki verði útrýmt með öllu úr heiminum innan örfárra ára. Þá verður að hætta bólusetningum gegn mænusótt líkt og hægt var að gera með bólusóttina, en henni var útrýmt með bólusetningum fyrir 20 árum. Ólöf Þóra Sveinbjörnsdóttir Auður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingar í Ungbarnavernd
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024