Bóklestur eykst í Reykjanesbæ
Útlán safngagna á Bókasafni Reykjanesbæjar jukust um 16% á milli áranna 2007 og 2008.
Á síðasta ári voru útlán 123.422 en 106.399 árið 2007. Að meðaltali koma 300 manns á dag á safnið, ýmist til að ná í safngögn, nota lesaðstöðu, kíkja í nýjustu blöðin, fara í tölvur, spila eða dvelja við lestur.
Alls 3165 lánþegar voru með gild lánþegaskírteini 31. desember 2008 og eru það 531 fleiri en 31. desember 2007. Ef miðað er við íbúafjölda í Reykjanesbæ 31. desember síðastliðinn, 14.200 manns, eiga um 22,29% íbúa skírteini og útlán eru 8,7 á hvern. Þau voru hins vegar 8,2 árið 2007.