Bókasafnsvörður er líka karlastarf
„Þetta er sem betur fer að breytast,“ segir Brynjar Harðarson
Brynjar Harðarson hefur starfað á bókasöfnum með hléum frá árinu 1996. Hann byrjaði fyrst í afleysingum á Bókasafni Reykjanesbæjar, vann svo í nokkra mánuði á Borgarbókasafni og frá árinu 1999 hefur hann séð um bókasafnið í Heiðarskóla.
Brynjar er með BA próf í sagnfræði með íslensku sem aukagrein. „Ég er ekki menntaður bókasafnsfræðingur, en menntunin mín nýtist hins vegar einstaklega vel í þessu starfi, enda tilvalið fyrir grúskara og bókaorma. Starfið mitt felst í því að ég tek ákvarðanir um það hvaða bækur er þörf á að kaupa, þegar einhver peningur er til. Ég versla þær inn, tengi þær svo í bókasafnskerfið, þyngdarflokka texta, plasta og styrki svo þær endist betur og kem þeim i útlán. Það þarf svo að koma þeim aftur í hillu að útláni loknu. Ég veiti ráðgjöf um bækur og aðstoða nemendur og kennara hvað það varðar ásamt fleiru. Ég hef yfirumsjón með bókasafninu, en ég er reyndar bara í 51% starfi á móti tölvuumsjón þannig það er takmarkaður tími sem ég hef í allt þetta,“ segir Brynjar.
Hann segist ekki hafa upplifað fordóma varðandi það að vera karlmaður í sínu starfi. „Ég hef hins vegar fundið fyrir því að þetta er ekkert sérstaklega hátt skrifað starf. Sumir líta niður á þetta og hafa látið í ljós að ég ætti nú að vera að vinna að einhverju merkilegra. Ég get hins vegar ekki verið meira ósammála enda leikur bókasafn gríðarlega stórt hlutverk í hverjum skóla.“
Aðspurður af hverju hann haldi að konur séu í meirihluta í þessu starfi segist Brynjar halda að það sé vegna gamaldags viðhorfa til karla- og kvennastarfa. „Hugsanlega var ekki mikið annað í boði til háskólamenntunar sem höfðaði til kvenna. Kannski réð ríkjandi viðhorf þar stórt hlutverk, að konur ættu ekki að fara í viðskipta- eða lögfræði eða slíkt. Svo spila launakjör örugglega inn í þetta þar sem þetta er illa borgað og einhverra hluta vegna hafa konur frekar sætt sig við lægri laun en karlar. Þetta er sem betur fer að breytast og fleiri og fleiri karlar sækja sér þessa menntun eða kjósa að vinna á bókasöfnum. Ég mæli hiklaust með starfi á bókasöfnum fyrir bæði kynin og sé engin rök fyrir því að það henti konum eitthvað frekar en körlum.“