„Bókasafnið er okkar allra og okkar staður“
- Bókasafn Reykjanesbæjar er elsta stofnun bæjarins
Bókasafn Reykjanesbæjar fagnaði 60 ára afmæli sínu í síðustu viku, af því tilefni var boðið upp á kaffi og köku og þeir íbúar Reykjanesbæjar sem áttu afmæli sama dag, fengu bókagjöf frá safninu. „Bæjar- og héraðsbókasafn Keflavíkur var formlega opnað þann 7. mars árið 1958, þá staðsett á efri hæð íþróttahúss Barnaskólans í Keflavík, nú Myllubakkaskóli.“ Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður safnsins segir frá þessu í pistli sem hún sendi Víkurfréttum í síðustu viku af tilefni afmælisins. Aðeins þrír hafa gengt stöðu forstöðumanns safnsins frá því það opnaði, Hilmar Jónsson var fyrsti bæjarbókarvörðurinn, síðan Hulda Björk Þorkelsdóttir og núna Stefanía. Við hittum Stefaníu á afmælisdaginn og spjölluðum við hana um afmælið og bókasafnið.
Hverju er verið að fagna hér á bókasafninu?
Nú er komið að 60 ára afmæli Bókasafns Reykjanesbæjar og við töldum þetta ágætan tíma til að koma saman og bjóða öllum að koma því þetta er bókasafnið okkar þannig að þetta var tilvalinn og flottur dagur til þess að koma saman.
Bókasafnið er ekki eins hefðbundið í dag eins og það var hér á árum áður, er ekki bókasafnið orðið að einskonar menningarmiðstöð núna?
Jú það er eiginlega þannig, fólk kemur hingað til að lesa, læra, upplifa sýningar og mæta á viðburði, þannig að þetta er búið að breytast mikið. Við erum svolítið þriðji staðurinn á eftir heimili og vinnu, eða við tölum um það. Fólk er hér til að hittast og koma saman.
Hvað eruð þið að bjóða upp á hér dags daglega á safninu og um helgar?
Við höfum verið með fasta viðburði eins og foreldramorgna og notalegu sögustundirnar, hugleiðsluhádegi, sögustundir fyrir alla leikskóla, höfum verið með Valla leikinn. Svo höfum við verið með námskeið og svo grípum við það ef eitthvað er að gerast í samfélaginu, ef einhver er að gefa út bók eða eitthvað slíkt. Svo erum við líka með hefðbundin bókmenntakvöld.
Er mikill reytingur hér á safninu dags daglega?
Já, þú myndir ekki trúa því, það eru allir að lesa. Nú er mikið að breytast, við erum komin inn í rafbókasafnið líka og við hvetjum fólk til þess að nýta sér það. Það er mjög mikill reytingur hér yfir daginn og bókin er ekki sko alls ekki að deyja út, heldur er markaðurinn bara að stækka.
Bjuggust þið við eins miklum mannfjölda og er hér samankominn í dag?
Já, ég var alveg með tilfinningu fyrir því að það kæmu svona margir því ég held að bæjarbúar upplifi það almennt að við eigum safnið saman. Þetta er okkar allra og okkar staður.
Hvaða aldur er að sækja safnið?
Unglingar sækja minnst hingað, það koma mikið af börnum hingað með foreldrum og eiginlega bara allur aldur. Ég hefði getað haldið þrjátíu ára gamla ræðu hérna sem Hilmar Jónsson samdi og í henni talaði hann meðal annars um það hvar unga fólkið væri. Þetta er bara gangur lífsins. Unga fólkið sem er í framhaldsskóla eða háskóla kemur mikið hingað til að læra og notar aðstöðuna okkar en við vitum oft ekki af þeim þegar þau eru á neðri hæðinni hjá okkur að læra. Þannig að við fáum þau til baka þegar þau hefja nám og vilja koma hingað til að læra í ró og næði.
Í tilefni að 60 ára afmæli Bókasafns Reykjanesbæjar hefur skemmtileg sýning verið sett upp í Átthagastofu, sýningarsal Bókasafnsins. Á sýningunni er farið lauslega yfir sögu bókasafna og bókasafnsins okkar, Bókasafns Reykjanesbæjar, í máli og myndum.
Byggðarsafn Reykjanesbæjar lánaði Bókasafninu marga flotta muni sem eru til sýnis og suma munina er hægt að prófa, sem hefur verið vinsælt hjá ungum jafnt sem öldnum.