Bókaormur í bæjarstjórastóli
Eirný Valsdóttir tók við stöðu bæjarstjóra í Vogum eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Hún er ekki ókunnug málefnum sveitarfélagsins því hún hafði um tíma starfað sem bæjarritari í Vogum við hlið fyrrverandi bæjarstjóra. Eirný hefur auk þess langa reynslu af stjórnsýslustörfum á vettvangi sveitastjórna en hún vann um árabil hjá Þorlákshafnarbæ og Akranesi á meðan hún bjó á þeim stöðum.
Eirný er fædd 1957 og er rekstrarfræðingur að mennt. Hún hefur að auki lokið MBA gráðu í viðskiptafræði og MPM gráðu í verkefnastjórnun. Áður en hún var ráðin bæjarritari í Vogum starfaði hún í 10 ár hjá Rannís þar sem hún kynntist nýju starfsumhverfi tengdu rannsóknum og þróun. Hún segir starfið þar hafa verið mjög forvitnilegt en til Rannís leita margir eftir styrkjum, samvinnu og þekkingu á sviði vísinda, rannsókna og nýsköpunar. „Þetta var mjög góður skóli fyrir mig en öll umræða á þessu sviði er mjög gagnrýnin og leitandi,“ segir Eirný.
Þrátt fyrir langa reynslu á sviði sveitarstjórnarmála hefur Eirný aldrei áður gegnt stöðu bæjarstjóra. Aðspurð segist hún kunna vel við sig í bæjarstjórastólnum. „Þetta er skemmtilegt, ótrúlega fjölbreytt og áhugavert en einnig krefjandi. Ég tel skemmtilegra að vera bæjarstjóri í litlu sveitarfélagi heldur en þeim stærri. Nándin við íbúana er meiri,“ segir Eirný.
Aðspurð um áhugamálin segist hún hafa mestan áhuga á útiveru, tónlist og bókum. „Ég er mikill bókaormur og les allt sem nöfnum tjáir að nefna nema kannski ástarsögur, ég er komin yfir það,“ segir hún og hlær. „Á náttborðinu núna eru tvær bækur um siðfræði og ein um sögu Ungverjalands. Ég hef mjög gaman af sögulegum skáldsögum og bókum fræðilegs eðlis. Mér finnst gaman að fræðast og eftir því sem bækurnar eru þykkari þeim mun skemmtilegra,“ segir Eirný.