Bókakonfekt Bókasafns Reykjanesbæjar með nýju sniði
Bókakonfekt Bókasafnsins verður með nýju sniði í ár vegna breytinga á húsakynnum. Í stað einnar stórrar dagskrár verður boðið upp á þrjú upplestrarsíðdegi þriðjudaginn 26. nóvember, miðvikudaginn 27. nóvember og fimmtudaginn 28. nóvember og hefst dagskráin kl. 17:30 alla dagana. Hvert síðdegi verður helgað ákveðnu bókmenntaformi og tveir höfundar kynna nýútkomin verk og lesa hvern dag.
Þriðjudaginn 26. nóvember verður Bókakonfekt helgað börnum. Þá kynnir Þórdís Gísladóttir bókina „Randalín og Mundi í Leynilundi“ og Gunnar Helgason bókina „Rangstæður í Reykjavík“.
Miðvikudaginn 27. nóvember verður lesið upp úr nýútkomnum skáldsögum. Jón Kalman Stefánsson les úr „Fiskarnir hafa enga fætur“ og Eiríkur Guðmundsson úr „1983“.
Fimmtudaginn 28. nóvember verða æviþættir og sögulegar skáldsögur í fyrirrúmi. Þá lesa Sigrún Pálsdóttir úr „Sigrún og Friðgeir – ferðasaga“ og Guðmundur Andri Thorsson úr „Sæmd“.
Dagskráin hefst eins og áður segir kl. 17:30 og er öllum opin, þátttakendum að kostnaðarlausu. Boðið verður upp á kaffi og konfekt, djús og súkkulaðimola á barnadagskránni.