Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Boðið far frá Eyjum á stolinni tryllu
Föstudagur 1. ágúst 2014 kl. 11:00

Boðið far frá Eyjum á stolinni tryllu

Verslunarmannahelgi Suðurnesjamanna

Garðbúinn hressi Árni Árnason mun halda sig í höfuðborginni þessa helgi og kíkja á Innipúkann.

Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Ég er nýkominn heim úr ferðalagi, elti sólina norður og á Austurlandið og fór einnig stutta ferð um Suðurlandið. Það er frábært að ferðast um fallega landið okkar, en ég býst við að ég verði í borginni um verslunarmannahelgina. Ég hef ekki farið neitt sérstakt síðustu 2 ár. Það er mikið fjör í miðborginni á Innipúkanum um verslunarmannahelgina og ég stefni á að njóta þess þetta árið með góðum vinum.  Ég verð að viðurkenna að eftir því sem aldurinn færist yfir mig dregur úr tjaldáhuganum, nema að það sé 100% öruggt að veðrið leiki við mig.

Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem einkennir verslunarmannahelgi er frábær stemning í fólki og mikil tilhlökkun. Eyjamenn standa auðvitað fremstir sem foringjar í þessu með því að gefa út þjóðhátíðarlag á hverju ári og ýta undir tilhlökkun landans. Lagið hans Jóns þetta árið er eins og lím, það festist í höfðinu á manni, enda virkilega gott lag. Það er ómissandi að hafa alltaf nýtt þjóðhátíðarlag, það er hluti af stemningunni á hverju ári. Þá er ómissandi að nýta þessa helgi í að gleðjast í góðra vina hópi og með fjölskyldunni. Verslunarmannahelgin er helgi þar sem við eigum að njóta þess að vera til.
                  
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Já að vísu er sú eftirminnilegasta því miður neikvæð. Ég var staddur í Vestmannaeyjum þegar banaslys í fjölskyldunni átti sér stað og var fastur á eyjunni fögru. En ég hef farið nokkrum sinnum á Þjóðhátíð í Eyjum og þær hafa allar verið skrautlegar, hver með sínum hætti. Það liggur fyrir að það er langskemmtilegast að fara á Þjóðhátíð, þar er fjörið. Það er svo sérstakt að það er í rauninni sama hvernig veðrið er, maður kemur alltaf  heim með gleði í hjarta. Man eftir Þjóðhátíð 2002 þar sem það rigndi eins og ég veit ekki hvað. Við vöknuðum í tjaldinu hálf á kafi. Við tjölduðum í lautu sem breyttist í litla tjörn. Ég var virkilega pirraður og við fórum tveir niður á bryggju til að ná Herjólfi heim. Við biðum í röðinni og fyrir framan okkur voru tveir túristar, þeir náðu tveimur síðustu miðunum. Við stóðum pirraðir á bryggjunni og horfðum á Herjólf sigla út innsiglinguna, þá rákum við augun í túristana sem ákváðu að fara ekki í bátinn. Ég verð að viðurkenna að mig langaði að öskra á þá, en við héldum í dalinn og fengum pláss í íþróttahúsinu líkt og margir aðrir. Þarna á bryggjunni bauð ónefndur Keflvíkingur okkur far en hann ætlaði að stela tryllu til að sigla í land. Við afþökkuðum gott boð. Eftir að hafa þurrkað fötin á ofni var bara farið í pollagallann í dalinn og kvöldið varð eftirminnilegt. Það segir manni að láta ekki veðrið eyðileggja stemninguna, það er ekki annað hægt en að hafa gaman ef maður ætlar sér það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024