Blossi í Bíósalnum á Ljósanótt
— samsýning á málverkum og ljóðum sem snúast um ástar- og hlutverkaleiki kynjanna
Fimmtudaginn 31. ágúst kl. 18:00 opna Sossa og Anton Helgi Jónsson sýningu undir heitinu Blossi í Bíósalnum, Duushúsum, Reykjanesbæ. Blossi er samsýning á málverkum og ljóðum sem snúast um ástar- og hlutverkaleiki kynjanna. Sýningin stendur til 15. október.
Sossa og Anton Helgi Jónsson eiga það sameiginlegt að hafa bæði velt fyrir sér margbreytileika mannlífsins, hún í málverkum og hann í ljóðum. Með bros á vör og lífsgleðina að leiðarljósi hafa þau dregið upp myndir af alls konar fólki í verkum sínum. Sossa hefur áður málað myndir út frá ljóðum úr bókum Antons Helga en málverkin á sýningunni Blossa urðu til eftir að listamennirnir ákváðu að vinna saman að sýningu með erótískum undirtóni.
Efniviðinn í málverkin hefur Sossa sótt í ljóð eftir Anton Helga sem fæst hafa komið fyrir augu annarra og sum reyndar orðið til upp úr samstarfi þeirra. Hugmyndir að ljóðunum eru sóttar í ýmsar áttir og sumar eru ævafornar. Þannig er í einu ljóði rifjað upp gamalt deilumál úr grískri goðafræði sem snérist um það hvort nyti kynlífs betur, karl eða kona. Í heildina er reynt að bregða upp myndum af alls konar fólki við margvíslegar aðstæður, það er fjallað um tvo karla sem hittast á hóteli í hádeginu, tvær konur sem kyssast í sumarbússtað, karl og konu sem dæsa út eftir samfarir í herbergi undir súð.
Málverkin eru ekki hugsuð sem myndskreyting við ljóðin heldur verk sem sprottin eru af sama eða svipuðum blossa. Þannig vilja listamennirnir láta reyna á það hvernig málverk og ljóð geta hvort á sinn hátt miðlað heitum tilfinningum; ástarblossa milli karls og konu, karls og karls, konu og konu. Hverju miðlar málverkið? Hverju miðlar ljóðið? Hvað er mynd í ljóði? Hvað er ljóð í mynd?
Sossa sýnir 11 málverk. Þau eru öll máluð undir áhrifum frá ljóðum eftir Anton Helga, sem fáir hafa lesið en áhugasamir geta flett þeim upp í sérstakri möppu á sýningunni.
Auk málverkanna eru á sýningunni 9 innrömmuð ljóð eftir Anton Helga. Fæst þeirra hafa komið út á bók. Þau eru prentuð í takmörkuðu upplagi á sérstakan grafíkpappír og afmörkuð á fletinum með þrykkingu auk þess sem trykkt er í pappírin smámynd eftir Sossu. Stærðin er 30X42 sm. Upplagið er takmarkað og hvert eintak árituð af Sossu og Antoni Helga.
Öll verkin á sýningunni eru til sölu. Ljóðin eru þrykkt í takmörkuðu upplagi og þeir sem vilja eignast eintak þurfa að panta fyrir 28. september. Hægt er fá ljóðin með eða án ramma.
Sem fyrr segir opnar sýningin þannn 31. ágúst. Sýningin stendur til 15. október.
Opið verður flesta daga frá 12 - 18.