Blossi á Ljósanótt
-Sossa og ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson saman með sýningu
Á Ljósanótt fer fram sýningin Blossi í Bíósal Duus Safnahúsa. Sýningin er samvinna myndlistakonunnar Sossu og ljóðskáldsins Antons Helga Jónssonar. Sossa er ein af okkar fremstu myndlistarmönnum og hefur verið með sýningar um allan heim. Anton Helgi Jónson hefur gefið út fjöldann allan af ljóðabókum ásamt sviðsleikverkum og þýðingum á leikverkum.
Á sýningunni eru málverk eftir Sossu og innrömmuð ljóð eftir Anton Helga Jónsson sem snúast um ástar- og hlutverkaleiki kynjanna. Ljóðin verða ekki við myndirnar þannig að gestir geta upplifað ljóðin og myndirnar í sitt hvoru lagi en gestir geta tengt ljóðin og myndirnar saman. Sossa og Anton Helgi eiga það sameiginlegt að hafa bæði velt fyrir sér margbreytileika mannlífsins, hún í málverkum og hann í ljóðum. Með bros á vör og lífsgleðina að leiðarljósi hafa þau dregið upp myndir af alls konar fólki í verkum sínum.
„Við ákváðum að vinna saman að sýningu með erótískum undirtón, það er mikill leikur og gleði í sýningunni. Það er hugmynd að gestir finni blossann í ljóðunum og myndunum. Við vitum ekki til þess að þetta hafi verið gert á þennan hátt áður,“ segir Anton Helgi.
„Efniviðinn sæki ég í ljóðin frá Antoni sem ég túlkaði með því að mála mynd eftir því sem ég sé út úr þeim. Málverkin eru ekki hugsuð sem myndskreyting við ljóðin heldur verk sem sprottin eru af sama eða svipuðum blossa. Við höfum bæði velt fyrir okkur margbreytileika mannlífsins á sitt hvorn hátt,“ segir Sossa.
Listamennirnir vilja láta reyna á það hvernig málverk og ljóð geta hvort á sinn hátt miðlað heitum tilfinningum; ástarblossa milli karls og konu, karls og karls, konu og konu. Hverju miðlar málverkið? Hverju miðlar ljóðið? Hvað er mynd í ljóði? Hvað er ljóð í mynd?
Sýningin opnar fimmtudaginn 31. ágúst kl. 18 og er opið til 20. Á ljósanótt verður opið frá 12 til 18 alla dagana. Sýningin stendur í sex vikur eða til 15. október.