Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 2. nóvember 2000 kl. 11:09

Blómstrandi menningarlíf í Reykjanesbæ: Barnaópera og stórsýning á dráttarbrautinni

Nú um helgina standa yfir sýningar í Heiðarskóla á barnaóperunni „Sæma sirkusslöngu“ eftir Malcolm Fox, en sýningar verða bara þessa einu helgi í Reykjanesbæ. Jóhann Smári Sævarsson þýddi og staðfærði verkið og var annar leikstjóra þess ásamt Jóni Páli Eyjólfssyni, Suðurnesjamanni, sem er að gera góða hluti í London. Jóhann Smári er með mörg önnur járn í eldinum. Framundan er meðal annars uppsetning á óperueinþáttungi og sálumessu, eftir Sigurð Sævarsson, á dráttarbrautinni í Keflavík. Listamaðurinn hefur skrifað undir samning við óperuhús í Þýskalandi, þar sem hann mun dvelja næstu mánuði, en fjölskyldan er þú í þann mund að flytja á höfuðborgararsvæðið eftir nokkurra ára búsetu norðan heiða. Sæmi sirkusslanga Barnaóperan Sæmi sirkusslanga var frumsýnd í ágúst sl. á vegum Norðuróps hjá Leikfélagi Akureyrar. Óperan er samin af ástralska tónskáldinu Malcolm Fox og texti eftir Susan og Jim Vile og heitir á frummálinu „Sid the serpent who wanted to sing“. Hún var samin að beiðni Menntamálaráðuneytis Ástralíu til að kynna listformið óperu fyrir börnum og koma fyrir ýmsar tónlistastefnur í verkinu allt frá ragtime, ítölskum óperum, jazz, rokki og háklassík. „Börnin fá að syngja með og tjá sig um framgang söguþráðarins, þegar Sæmi spyr þau og eru þau þannig virkir þáttakendur í flutningnum. Verkið hlaut góða dóma í Morgunblaðinu og hefur notið mikillar athygli, sem dæmi litu inn kanadískir kvikmyndagerðarmenn á sýningu hjá okkur í september, tóku hana upp og fengu leyfi til að sýna í vinsælum kanadískum sjónvarpsþætti. Börn sem fullorðnir koma brosandi út eftir sýningar og höfum við söngvararnir ekki minna gaman af þessum sýningum, þar sem börnin taka þátt í sýningunni og koma okkur iðulega á óvart með spurningum sem maður kannski reiknaði ekki með. Þetta er í rauninni sýning fyrir alla aldurshópa allt frá 2ja ára aldri. Í sýningunni eru persónur eins og sterki maðurinn, trúðurinn og aðalsögupersónan er slanga sem vill læra að syngja og ferðast um heiminn til að reyna að finna sinn eina sanna tón“, segir Jóhann Smári. Ópera í dráttarbrautinni í Reykjanesbæ Að sögn Jóhanns er byrjað að vinna að næsta stóra verkefni Norðuróps, sem er nokkuð stærra um sig en barnaóperan. „Hugmyndin er að setja upp óperueinþáttung á dráttarbraut Reykjanesbæjar og sálumessu eftir annan Suðurnesjamann, Sigurð Sævarsson. Sálumessan hefur enn ekki verið frumflutt á Íslandi en hefur verið flutt í Boston. Þetta verður óperu- og ljósasýning og uppi eru samningaviðræður við dansara um að taka þátt í uppsetningunni. Það sem verður líka nýstárlegt við þessa uppsetningu er að það verður ekki með heilli hljómsveit, heldur blanda af lifandi hljóðfærum og rafmagnshljóðfærum á algerlega nýjan hátt í útsetningu Sigurðar. Hlutverk verða m.a. sungin af söngvurum af Suðurnesjum, sem eru að gera góða hluti heima og erlendis“, segir Jóhann Smári og bætir við að verkefnið hafi þegar verið kynnt fyrir nokkrum aðilum á Suðurnesjum og víðar og verið mjög vel tekið en það verður unnið í samvinnu með nýjum menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, Valgerði Guðmundsdóttur. Komin á samning í Þýskalandi Jóhann Smári mun dvelja næstu fjóra mánuði í Saarbrucken í Þýskalandi og taka þátt í nútímaóperu eftir Robert Hanell. „Ég er búinn að skrifa undir samning og mun syngja eitt aðalhlutverkið í verkinu. Í burðarliðnum eru tilboð um fleiri verkefni, sem ég vil ekki greina frá fyrr en skrifað hefur verið undir“, segir Jóhann Smári en það er ljóst að verkefnaskortur er ekki að hrjá hann. Eiginkona Jóhanns er Elín Halldórsdóttir, söngkona og píanókennari og eiga þau tvö börn, Sævar Helga og Gunnhildi Ólöfu. Fjölskyldan hefur hugsað sér til hreyfings en hjónin hafa starfað við Tónlistarskóla Akureyrar undanfarin ár. „Okkur hefur boðist góð íbúð til leigu í Grafarvogi og hyggjumst við flytja á höfuðborgarsvæðið, þar sem fjölskylda konu minnar býr. Mér léttir að vita af þeim í faðmi fjölskyldunnar í Reykjavík, í stað þess að berjast ein við norðlenska veturinn. Við flytjum nú í lok nóvember og ég á að vera kominn til Saarbrucken 1. desember og íhugar kona mín nokkur góð atvinnutilboð í Reykjavík. Eftir því sem meira verður að gera hjá mér verður það svo spurning hvort við flytjum aftur erlendis eftir 2-3 ár, en við ætlum nú að stoppa aðeins í Reykjavík, en það er einn af fylgifiskum unga óperusöngvarans að þurfa alltaf að vera að flytja“, segir þessi athafnasami listamaður að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024