Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blómstrandi menning um helgina
Föstudagur 11. júní 2004 kl. 15:47

Blómstrandi menning um helgina

Menningin mun sannarlega blómstra í Reykjanesbæ um helgina. Í dag kl. 16:00 verður 25 ára afmælissýning Byggðasafns Reykjanesbæjar formlega opnum í Duushúsum, á 10 ára afmælisdegi Reykjanesbæjar. Sýningin ber heitið "Milli tveggja heima - Á fortíðin erindi við framtíðina" og mun standa í eitt ár.
Á sýningunni verða munir, ljósmyndir og hreyfimyndir og eru sýningagestir hvattir til að láta í ljós skoðun sína á því hvað ber að varðveita.

Í Listasafni Reykjanesbæjar stendur nú yfir sýning á verkum Margrétar Jónsdóttur "In Memoriam", en sýningum lýkur 20. júní og því fer hver að verða síðastur á sjá hana. "Eflaust besta einkasýningin sem Listasafn Reykjanesbæjar hefur boðið upp á síðan Einar Garibaldi vígði sýningarsalinn í Duushúsi haustið 2002", segir í myndlistargagnrýni Jóns B.K. Ransu í Morgunblaðinu fimmtudaginn 10. júní.
Duushús - Menningarmiðstöð er opin alla daga kl. 13:00 - 17:30 og þess má geta að frá áramótum til 6. júní höfðu 11.596 gestir komið í Duushúsin.

Þá hófst í vikunni á Bókasafni Reykjanesbæjar sölusýning Önju Thoesdóttur á olíumálverkum úr bókinni "Meðan þú sefur" (sjá fréttamynd). Sýningin stendur til 10. júlí og er opin á opnunartíma bókasafnsins, kl. 10:00 - 19:00 virka daga og kl. 10:00 - 16:00 laugardaga.

Tvennir tónleikar verða í Listasafni Reykjanesbæjar á næstu dögum.
Laugardaginn 12. júní mun Rúnar Þór Guðmundsson, tenór halda sína fyrstu einsöngstónleika og samanstendur efnisskrá af þekktum íslenskum sönglögum og erlendum, en einnig ítölskum aríum. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00.

SJÁLFSTÆÐI - SÖNGUR - STOLT er yfirskrift tónleika Alexöndru Chernyshova, sópran, Ingveldar Ýrar Jónsdóttur, messósópran og Gróu Hreinsdóttur, píanóleikara í Listasafni Reykjanesbæjar 16. júní. Tónleikarnir verða á þjóðlegum nótum þar sem sungið verður á úkraínsku, rússnesku og íslensku eftir tónskáld frá viðkomandi löndum. Á efnisskrá verða m.a. alþýðu- og þjóðlög, aríur úr óperum og rómantísk lög. Tónleikarnir eru tileinkaðir þjóðhátíðardegi Íslands og hefjast kl. 20:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024