Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blómin eru vinir í gleði og sorg
Elinrós að störfum í gróðurhúsi sínu. Þar ræktar hún blómin sem hún málar. Myndin var tekin í lok síðasta sumars. VF-mynd/dagnyhulda
Föstudagur 2. desember 2016 kl. 06:00

Blómin eru vinir í gleði og sorg

- Elinrós Eyjólfsdóttir fór í myndlistarnám um fertugt og fylgdi köllun sinni

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Elinrós Eyjólfsdóttur, listmálara. Hún hélt sýningu í Hofi á Akureyri í mars og svo í Duus Listasafni í Reykjanesbæ á Ljósanótt. Sú sýning stóð fram í október. Undirbúningurinn fyrir sýningarnar tók tvö til þrjú ár. „Eftir sýningarnar á árinu hefur eftirspurn eftir verkum mínum aukist töluvert og ég á hreinlega erfitt með að anna henni þessa dagana því vinna við hvert verk tekur drjúgan tíma,” segir hún.

Elinrós fagnaði 75 ára afmæli sínu í haust en er hvergi nærri sest í helgan stein og sinnir starfi sínu sem listmálari alla virka daga. „Ég er heppin að vera í draumastarfinu að mála uppstillingar,” segir hún. Blóm eru Elinrós hugleikin og eru þau efniviður margra verka hennar. Í gróðurhúsi í garðinum sínum ræktar hún ýmsar tegundir blóma og tekur inn á vinnustofuna þá tegund sem hún er að mála hverju sinni. Ef svo ber undir þá málar hún líka fólk og landslag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í hverju listaverki er sál listamannsins
„Það er þannig með starf listmálarans að maður verður aldrei leiður. Það er alltaf eitthvað sem maður getur bætt við sig. Myndlistarmenn eru alltaf nemendur og að þróa sig,” segir hún. Elinrós málar verk í raunsæisstíl og segir að mörgu að huga við vinnuna. Að mála ljósið sem fellur á formið, íhuga vel hvort birtan eigi að vera heit eða köld og sömuleiðis ljós og skugga og síðast en ekki síst að velja réttu litina. „Í hverju listaverki er smá hluti af sál listamannsins. Það kemur fram í verkinu hvernig honum líður þegar hann er að mála. Því þarf maður að undirbúa sig vel fyrirfram og helst að vera mjög ánægður með verkið. Því ánægðari sem maður er, því betri verður útkoman.”

Sýning Elinrosar var opnuð á Ljósanótt í Duus húsum og var myndin tekin þar.

Elinrós ólst upp á Akureyri, en var fermingarárið í Keflavík og hafði gaman að myndlist í barnaskóla. Hún stundaði nám í tvö ár við Menntaskólann á Akureyri og bjó þá hjá móðurbróður sínum, Sverri Hermannssyni, sem síðar átti eftir að stofna Smámunasafnið í Eyjafjarðarsveit. Þá lauk hún námi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði. Það var svo ekki fyrr en Elinrós var orðin 36 ára og börnin hennar tvö orðin uppkomin að hún ákvað að halda áfram að rækta myndlistarhæfileika sína og sótti námskeið hjá Baðstofunni. „Ég hugsaði lítið um það í kringum tvítugsaldurinn að læra myndlist enda gekk lífið þá út að vinna og eiga í sig og á.”


Myndlistin er köllun
Stuttu eftir að Elinrós byrjaði að sækja námskeið hjá Baðstofunni sá hún postulínsplatta á útidyrahurð og heillaðist af handverkinu. Hún hafði uppi á listamanninum sem hafði gert plattann, Elínu Guðmundsdóttur, og lærði postulínsmálun hjá henni. Þær ferðuðust svo saman víða um land og kenndu postulínsmálun. Fertug hóf Elinrós svo nám við málaradeild Myndalista- og handíðaskóla Íslands, sem nú heitir Listaháskóli Íslands. Samnemendurnir voru töluvert yngri. Hún segir að fólk hafi margt verið hissa á þessari stefnubreytingu sem hún tók í lífinu fertug, að skella sér í háskólanám í myndlist. Síðan varð ekki aftur snúið og Elinrós hefur haft myndlistina að atvinnu síðan hún lauk náminu. Lengi vel málaði hún á postulínsplatta og ungbarna skírnarskó úr postulíni sem seldir voru í versluninni Tékk-Kristal.

„Þegar ég hugsa til baka þá hefur ferillinn verið skemmtilegur. Myndlistin er mín köllun og ástríða. Það hefur fátt annað komist að hjá mér en börnin, heilsan og að mála,” segir Elinrós en hún á tvö börn, fimm barnabörn og tvö barnabarnabörn.


Mikilvægt að mála frá hjartanu
Eins og áður sagði þá hafa blóm verið ríkjandi í verkum Elinrósar. Hún segir það hafa verið togstreitu þegar hún nam við MHÍ því að þá hafi „nýja málverkið“ verið ríkjandi. „Í skólanum vildi ég helst mála blóm en það var ekki alltaf vinsælt. Maður verður bara að mála frá hjartanu, þannig verður listin sönn.” Á árunum í MHÍ vildi Elinrós læra meira um undirstöðuatriði í myndlist. „Á þessum tíma átti fólk bara að mála það sem því datt í hug en það var erfitt fyrir mig því ég er svo formföst.” Elinrós útskýrir að myndlist sé ekki svo ólík tónlist. Það sé ekki hægt að setjast við píanó og byrja að spila sinfóníur án þess að kunna nótur. Á sama hátt sé ekki hægt að mála á strigann án þess að kunna undirstöðuatriði myndlistar.

Síðar nam Elinrós við Skidmore College í New York og hefur tekið þátt í fjölda vinnustofa víða um heim. Á ferlinum hefur hún kynnst fjölda listamanna frá ýmsum heimshlutum og heldur góðu sambandi við þá.

Aðspurð að því hvaða kosti fólk þurfi að hafa til að verða góðir myndlistarmenn þá segir Elínrós það einkum vera þrennt; hæfileika, þolinmæði og drauma. „Ég heyrði rússneskan ballettdansara einu sinni lýsa starfi sínu svona og er innilega sammála. Það þarf vitanlega að hafa hæfileika á sínu sviði. Þolinmæðin er líka alveg nauðsynleg því oft er það þannig með markmið að manni finnst að þau ætli aldrei að nást. Svo þarf maður að eiga sér draum sem maður vill að rætist.”

Ekki er hægt að ljúka viðtalinu án þess að spyrja Elinrós út í áhugann á blómum. „Oft segja nöfn fólks mikið um persónuleikann. Ég heiti Elinrós í höfuðið á ömmu minni, Elinrós Benediktsdóttur, sem var ljósmóðir í Keflavík í áraraðir, og er með millinafnið Blomquist eins og systkini mín, og hef teiknað og málað blóm síðan í æsku. Kannski fékk ég þessa gjöf, einlægan áhuga á blómum, með nafninu, hver veit? Að mínu mati eru blómin það fallegasta í náttúrunni. Þau eru vinir í gleði og sorg.“

Elinrós verður með opna vinnustofu í dag, föstudaginn 2. desember, að Klettási 11 í Ytri-Njarðvík á milli klukkan 17 og 19. Allir eru hjartanlega velkomnir.

[email protected]