Blómamarkaður Systrafélagsins í fullum gangi
Systrafélag Ytri-Njarðvíkurkirkju stendur þessa dagana fyrir sínum árlega blómamarkaði.
Markaðurinn er aðalfjáröflun félagsins en allur ágóði af blómasölunni rennur til viðhalds endurnýjunar á húsbúnaði kirkjunnar.
Markaðurinn opnaði í gær og stendur fram á sunnudag. Opnunartími er frá kl. 13 til 17 alla daga og er viðskiptavinum boðið upp á kaffi og bakkelsi innan dyra, en ekki veitti af í „góða veðrinu“ í dag að komast inn í huggulegheitin.
Félagsskapurinn hefur staðið fyrir þessum markaði síðustu 23 ár og var í upphafi til styrktar kirkjubyggingunni.
Þær sögðust að lokum vonast eftir betra veðri um helgina, en salan hefur verið ágæt það sem af er þrátt fyrir veður.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Upprennandi Systrafélagskonur í blómahafi