Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Blóð úr 30 manns bjargaði lífi móður
Nýbakaðir foreldrar, Tryggvi og Birta, með snáðann.
Fimmtudagur 21. ágúst 2014 kl. 09:26

Blóð úr 30 manns bjargaði lífi móður

Birta Baldursdóttir var hætt komin eftir bráðakeisaraaðgerð.

„Ég fékk að vita að ég þyrfti að hendast í hlífðarfatnað og vera viðstaddur fæðingu sonar míns sem taka átti með bráðakeisara. Svo loks þegar ég var kominn inn var verið að reyna deyfa kærustuna mína og ekkert gekk og ákveðið var að svæfa hana. Við svæfingu fá makar ekki að vera viðstaddir og ég beið því í smá stund þar til ég fengi að sjá hann. Loks fékk ég hann í hendurnar en hafði ekki hugmynd um að móðurinni var að blæða út og hún barðist fyrir lífinu eftir aðgerðina,“ segir Keflvíkingurinn Tryggvi Hrannar Jónsson, en hann og kærasta hans, Birta Baldursdóttir, eignuðust son 20. júlí síðastliðinn. „Það var mjög skrýtin tilfinning að svona frábær stund, að sitja með glænýjan son minn í fanginu, skyldi breytast á örskotsstundu í martröð,“ segir Tryggvi en snör viðbrögð starfsfólks Landspítalans hafi orðið til þess að allt fór betur en á horfðist og fjölskyldan er komin heim og allt gengur vel. „Við vorum heppin með alla aðstoð sem við fengum,“ segir Tryggvi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hraustur og flottur strákur.

Orðinn sjálfur reglulegur blóðgjafi
Þegar blaðamaður heyrði í Tryggva var litli snáðinn steinsofandi og að sögn föðurins lætur hann lítið í sér heyra. „Mamman er stundum dálítið utan við sig enda ekki skrýtið því lítið var eftir af hennar eigin blóði í líkamanum. Hún fékk aftur á marga lítra frá öðrum - alls þrjátíu blóðgjafir“. Tryggvi og fjölskylda eru afar þakklát blóðgjöfunum og starfsfólki Landspítalans. Á afmælisdegi sínum 11. ágúst hóf Tryggvi daginn á því að gefa blóð í fyrsta sinn. „Mánuði áður en sonur minn fæddist fór ég og skráði mig sem blóðgjafa fyrir rælni og mátti því gefa blóð næst. Svo kom þetta upp á og minnti mann á hversu mikilvægar blóðgjafir eru og ég mun gefa reglulega blóð héðan í frá,“ segir Tryggvi, sem hefur fengið fjölda „snapchatta“ þar sem fólk sýnir honum að það sé að gefa blóð. Einnig hefur hann fengið skilaboð í símann frá fólki í sömu erindagjörðum. „Það er rosalega gaman að sjá þetta. Systir mín var komin fyrir utan Blóðbankann og sendi mér mynd. Einnig stendur fólk fyrir utan Blóðbankabílinn og tekur mynd af sér þar. Það er frábært að þetta hafi svona áhrif, þá er tilganginum náð,“ segir Tryggvi og hvetur alla sem hafa heilsu til að gefa blóð. Hver gjöf skiptir máli.

Viðtalið við Tryggva og Birtu er í nýjasta tölublaði Víkurfrétta í dag.

VF/Olga Björt