Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

Mannlíf

Blítt og létt hópurinn með gömlu og góðu Eyjalögin
Laugardagur 12. mars 2016 kl. 11:58

Blítt og létt hópurinn með gömlu og góðu Eyjalögin

- Menningarvikan í Grindavík hefst á laugardag með pompi og pragt

Grindvíkingar og Vestmanneyingar hafa ávallt tengst sterkum böndum enda myndarleg sjávarútvegspláss, öflugir íþróttabæir og menningin blómstrar á báðum stöðum. Í Menningarvikunni í Grindavík fá heimamenn góða heimsókn frá Vestmannaeyjum þegar sönghópurinn Blítt og létt mætir og verður með Eyjakvöld á Salthúsinu næsta laugardagskvöld klukkan 21:00.

Þar verða leikin Eyjalög og textum varpað á skjá fyrir almenning til að syngja með. Eyjalögin eru dýrmætur menningararfur sem halda verður á lofti til framtíðar. Sönghópurinn Blítt og létt var Bæjarlistamaður Vestmanneyja 2015. Hópinn skipa valinkunnir Vestmanneyingar eins og Finnur á nikkunni, Óli í Laufási, Simmi og Unnur í Viking, Diddi í Logum, Biggi Nielsen, Davíð í Tölvun, Grímur kokkur, Páll Viðar, Tóti í Dans á Rósum og Helgi Tórshamar. Fjölmargir aðrir valinkunnir einstaklingar hafa síðan leikið og sungið með hópnum og aldrei er að vita nema Grindvíkingar verði þar á meðal. Hópurinn hefur staðið fyrir svokölluðum   Eyjakvöldum mánaðarlega í nokkur ár. Ávallt hefur verið húsfyllir. Að sögn Davíðs Guðmundssonar, eins af forsprökkum Blítt og létts, myndast ávallt góð stemmning. Allir geta sungið með því textinn er á skjánum og því getur hver og einn sungið með sínu nefi. Inn á milli eru sagðar skemmtilegar Eyjasögur sem tengjast lögunum á einn eða annan hátt. Sönghópurinn hefur slegið í gegn undanfarin ár og spilað í Hörpunni, í ráðherraveislu og á fleiri opinberum stöðum. Eyjalögin, til dæmis perlur þeirra Oddgeirs Kristjánssonar og Ása í bæ eru dýrmætur menningararfur sem Eyjamenn eru duglegir að halda á lofti. Blítt og létt hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða. Færeyingar hafa fengið að njóta ljúfra tóna hópsins og í náinni framtíð stendur til að halda vestur um heim og kynna Eyjalögin þar. Miðaverð er 2.500 og er selt við innganginn.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25