Blautir busar í FS
Fimmtudaginn 30. ágúst var komið að hinni hefðbundnu vígslu nýnema við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Strax um morguninn þurftu busagreyin að leysa ýmsar þrautir og fylgja margvíslegum reglum sem eldri nemendur höfðu sett í tilefni dagsins. Þá voru nýnemarnir vel merktir svo ekki færi á milli mála hverjir þar væru á ferðinni. Busunum var síðan smalað saman á sal þar sem þeir fengu smekkleg höfuðföt.
Hefð er fyrir því að ganga í skrúðgöngu á vígslustaðinn sem hefur undanfarin ár verið við 88-húsið við Hafnargötu. Í ár var gangan í styttra lagi því busarnir fóru út úr salnum og gengu svo í kringum skólann en busavígslan fór að þessu sinni fram á skólalóðinni. Þar þurftu nýnemarnir að ganga í gegnum erfiða og blauta þrautagöngu og smakka á lýsi og öðru góðgæti.
Það er orðin hefð fyir því að bleyta vel í busunum og undanfarin ár hefur það gengið vel því vígslan hefur farið fram rétt við slökkvistöðina. Okkar ágætu slökkviliðsmenn hafa þá mætt á svæðið og sprautað yfir mannskapinn. Þó að vígslan færi að þessu sinni fram við skólann lét slökkviliðið sig ekki muna um að mæta á staðinn og láta dæluna ganga.
Að vígslunni lokinni var svo hinum nývígðu nemendum boðið upp á pizzu og gos. Ekki var annað sjá en að fólk skemmti sér vel og nýnemarnir blautir en sáttir. Um kvöldið var svo hið hefðbundna busaball.
Veglegt myndasafn frá busadeginum er komið á vef skólans og má sjá það hér. Myndirnar tók hirðljósmyndari skólans, Axel Gísli Sigurbjörnsson.
Umfjöllun fss.is