Blaut Jónsmessuganga á Þorbjörn
Þrátt fyrir rigningu og rok mættu 133 í Jónsmessugöngu Bláa lónsins og Grindavíkurbæjar síðasta laugardagskvöld. Gengið var frá sundlauginni upp á Þorbjörn og létu göngugarpar veðrið ekki slá sig út af laginu heldur gengu kröftuglega upp á fjallið og úr varð skemmtileg og eftirminnileg gönguferð.
Vegna veðurs var ekki hægt að tendra varðeld á Þorbirni eins og gert hefur verið. Þá gat Eyjólfur Kristjánsson ekki tekið fram gítarinn í rigningunni en hann mætti engu að síður upp á fjallið. En göngugarparnir voru hressir og kátir á fjallinu og héldu svo í Bláa lónið en þar tók Eyjólfur fram gítarinn við góðar undirtektir, segir í frétt á vef Grindavíkurbæjar.