Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blákaldur raunveruleikinn á Gaza
Rakel Ólöf Andrésdóttir, Kristín Rán Júlíusdóttir, Valgerður Kjartansdóttir og Bryndís Sunna Guðmundsdóttir.
Sunnudagur 19. október 2014 kl. 12:00

Blákaldur raunveruleikinn á Gaza

Nemendur í FS nýttu sér mátt samfélagsmiðla í metnaðarfullu verkefni.

Fjórir nemendur á lokaári í FS kynntu nýverið metnaðarfullt verkefni um Gaza svæðið í landafræðiáfanga. Þær nýttu sér mátt samfélagsmiðlanna Facebook og Vine til þess að ná sambandi við viðmælendur sem búa á staðnum og upplifðu ýmislegt sláandi í gegnum þá.

Vildu fá beina tengingu
„Okkur langaði að tala við manneskju sem býr á Gaza svæðinu, sjá hvernig hlutirnir hafa breyst þar og fá beina tengingu við staðinn. Við vildum ekki notast við fréttasíður því þar eru oft hagsmunaöfl sem hafa áhrif,“ segja Valgerður Kjartansdóttir, Rakel Ólöf Andrésdóttir, Bryndís Sunna Guðmundsdóttir og Kristín Rán Júlíusdóttir en að eigin sögn eiga þær allar til að ganga skrefinu lengra í því sem þær taka sér fyrir hendur. Kennarinn þeirra, Ester Þórhallsdóttir, sagði nemendum sínum að vinna verkefni sem tengist Ísrael og Palestínu. Þær byrjuðu á að senda póst til mbl.is, visir.is og Amnesty Ísland til að spyrja hvort þau hefðu fréttamenn á sínum snærum þar sem gæti bent þeim á einhvern íbúa. Þær fengu ekkert svar frá íslensku miðlunum og engar upplýsingar var að fá hjá Amnesty. „Ester var þá búin að fylgjast með ungri konu á Vine síðunni, við fundum hana þar og í framhaldi af því á Facebook. Settum okkur svo í samband við hana en hún svaraði ekki strax.“

Eyðilögðu heimilið sjö sinnum
Kristín var búin að vera að fylgjast með Facebook like-síðu sem heitir Middle East Monitor og ákvað að prófa að senda póst þangað til að spyrja hvort þeir væru með tengilið og var bent á 34 ára palenstínskan fréttamann sem býr á Gaza. „Hann varð síðan viðfangsefni okkar í verkefninu sem við erum búnar að flytja. Hann segist ekki eiga í samskiptum við Ísraelsmenn og verða að halda sér hlutlausum. Hann segir átökin hræðilega upplifun þegar þau ganga yfir. Miklar takmarkanir og höft eru þar, t.d. sótti hann um að komast í nám árið 2006 og komst ekki inn fyrr en 2010. Það er líka sjö sinnum búið að eyðileggja heimilið hans. Hann vill alveg endilega koma öllu slíku á framfæri.“

Rústir, blóð og nálykt
Stúlkurnar segja að verkefnið hafi opnað augu þeirra fyrir því hversu alvarlegt ástandið er þarna. Einnig hafi þær fengið aukinn áhuga á kynnast svæðinu og ástandinu betur. „Þegar við náðum loks sambandi við 22 ára gamla palenstínska stúlku, Löru, ákváðum við að ein okkar, Bryndís, yrði aðal tengiliðurinn við hana. Bryndís er þegar farin að fá hjörtu og læti frá henni á Facbook,“ segja þær brosandi. Lara sagði þeim m.a. að einungis sé skammtað rafmagni sex tíma á dag þar og það sé þó mjög stopult. Hún sendir þeim m.a. hljóðskrár í gegnum póstkerfið á Facebook þar sem hún lýsir dögunum sínum. „Á Vine sjáum við sprengingar, reyk og rústir hjá henni. Það er erfitt fyrir íbúana að komast út af svæðinu og þau fá enga aðstoð af hálfu ísraelskum heilbrigðisyfirvöldum vegna þjóðernis síns. Lara hefur einnig sýnt okkur stutt myndbönd af rústum og lýst því hvernig lykt af blóði og líkum umlykur sem svæðin. Ástandið opnaðist betur fyrir okkur þegar við sáum myndböndin,“ segja þær.

„Þau áttu þetta land“
Spurðar um hvað hafi komið þeim mest á óvart við vinnslu verkefnisins segja stöllurnar vera þá stöðu að 2/3 Palestínumanna eru flóttamenn í eigin landi. „Þau áttu þetta land en það er búið að taka það af þeim. Gríðarlegur fjöldi barna hefur látið lífið í átökunum þarna. Þegar við vorum að skoða myndir frá fyrsta skóladeginum hjá börnum í Palestínu voru þau hágrátandi að syrgja bekkjarfélaga sem höfðu látist í átökunum í sumar. Stórt gat var þar sem taflan var áður í skólastofunni. Það var mjög tilfinningaþrungið,“ segja þær og finnst ótrúlegt hversu margar stórþjóðir styðja Ísrael.



Facebook opnar leiðir
Góð vinátta hefur orðið til meðal námsmeyjanna fjögurra vegna verkefnisins. Rakel og Bryndís voru þó vinkonur fyrir og einnig Kristín og Valgerður. Þær eru allar á félagsfræðibraut, tvær fyrrnefndu úrskrifast um jólin og síðarnefndu í vor. „Við eigum gott með að vinna saman. Ef grunnskólarnir eru að gera svipuð verkefni gæti þetta verið fyrirmynd. Facebook kemur mjög sterk inn sem samfélagsmiðill í svona verkefnum. Hún opnar leiðir og við höfum fengið tækifæri til að fræða heiminn um það sem í raun er að gerast þarna,“ segja stöllurnar sem ætla að halda áfram sambandi við Löru og kynna sér málin enn frekar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF/Olga Björt