Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Blaffi: Partý lestin
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. ágúst 2020 kl. 18:45

Blaffi: Partý lestin

Rapparinn Hafþór Orri Harðarson, sem gengur undir listamannsnafninu Blaffi, fæddist í Grundarfirði en var „mótaður“ í Njarðvík. Hann gaf nýverið út sína fyrstu hljómplötu sem ber nafnið Partý lestin. Viðtökur hafa verið framar vonum: „Já, heldur betur. Ég hef aldrei fengið svona marga áheyrendur áður og mörg falleg skilaboð.“

„Ég er búinn að vera í rappinu síðan 2012 og hef verið svona „underground battl’“-rappari – en núna vil ég fara að fá borgað fyrir þetta,“ segir Blaffi og hlær.

Fúlnefni verður listamannsnafn

„Blaffi er karakter sem skapaðist á djamminu, Haffi í Blackouti. Það var bara ákveðin týpa og eftir að ég fór í meðferð, ég er búinn að vera edrú í fimm ár, var oft verið að nota þetta til að pönkast eitthvað í mér: „Hva’, er Haffi í Blackouti alveg farinn?,“ – og ég ákvað bara að breyta þessu fúlnefni í listamannsnafn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Það eru stór nöfn með þér á plötunni.

„Já, heldur betur. Blaz Roca [Erpur Eyvindarson], Aron Hannes og fullt af ungum strákum sem eru rosa flottir og eiga eftir að ná langt. Svo eru flottir pródúserar á plötunni, Ívar Örn Jónsson, sem er úr Eyjum en býr hérna á Suðurnesjum, og Bjarki Hallberg sem pródúserar fyrir Pál Óskar. Ég er ótrúlega lukkulegur með fólkið í kringum mig, meiriháttar heppinn. Platan var tekin upp í Kópavogi, hjá honum Bjarka. Hann mixar og masterar allt, hann er lærður og alvöru dúddi í þessu.“

Er ekkert að róast

„Ég er ekkert að fara að róast í þessu, það eru fleiri „singlar“ á leiðinni og það verða gefin út myndbönd við þau lög ... það verður miklu púðri eytt í þau og það verður algjör veisla. Mjög stór nöfn í rappheiminum sem verða á þeim lögum.“

– Er mikið plan framundan?

„Sko, já og nei. Þetta er allt í hálfgerðu lausu lofti með þetta Covid og allt saman. Það var rosa margt planað og ég ætlaði að halda útgáfutónleika – og þeir verða kannski haldnir en þá með mjög stuttum fyrirvara ef Covid leyfir. Þeir yrðu þá haldnir á Spot í Kópavoginum. Annars eru það nú bara svona heimapartý sem maður stelst í að gigga á meðan ástandið er svona.“


Rapparinn Blaffi velur fimm af sínum uppáhaldsplötum:

Mötley Crue: Dr. Feelgood

Ég kynnist Mötley Crue þegar ég var sex ára gamall. Þá bjó ég hjá ömmu og afa með tveimur eldri frændum sem ég sá ekki sólina fyrir og annar hlustaði mikið á þá. Ég komst eithvern tímann í geisladiskinn þegar ég var að gramsa í herberginu hans í leyfisleysi og setti veisluna í gang. Hröð tónlist, berbrjósta stelpur og partýstand. Það er ekkert betra þegar þú ert sex ára.

Gísli Pálmi: Gísli Pálmi

Hann er bara geðveikt kúl. Góðar myndlíkingar  sem að taka mann í einhvern annan heim. Stundum grimman stundum sorglegan en samt ... frekar kúl.

The Game: Doctor’s Advocate

Game er svona svipaður og Gísli Pálmi ... asnalega kúl og naglharður. Ég hlustaði mest á Game þegar ég var að æfa mig að rappa og móta minn stíl. Ég held að það sé ekki til amerísk rappstjarna sem The Game hefur ekki rifið kjaft við og hann sýnir mjög vel hvað hann er beittur á þessari plötu.

Outkast: Stankonia

Stankonia er fyrsti rappgeisladiskurinn sem ég eignaðist og var blastaður dögunum saman þegar ég var gutti. Ég veit ekki alveg hvernig ég get lýst þessari plötu EN ég get lýst tólf ára Blaffa sem fannst fátt betra en að vakna stökkva á fætur setja diskinn í tækið og syngja í sjónvarpsfjarstýringuna með öllum lögunum.

BLAFFI: Partý lestin

Þú ert einfaldlega ekki tvítugur rappari ef þú ert ekki uppáhaldsrapparinn þinn. Ég hef unnið í þessari plötu í eitt og hálft ár, brjálaðar sögur sem því miður munu ekki allar fljóta á yfirborðið og nokkur dulin skilaboð í ákveðnum lögum.
Ég er 100% viss um að þeir sem chekka á plötunni minni setja hana í topp fimm listann sinn.