Bjórsmökkun á bæjarskrifstofunni og hamborgarar á Þorláksmessu
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur í jólaspjalli
Bæjarstjórinn í Grindavík heldur í margar jólahefðir en hann fer m.a. norður í land á aðventunni til þess að baka laufabrauð með tengdafólkinu. Ein af eftirminnilegri jólagjöfunum sem Róbert fékk í æsku var Playmobile sjóræningjaskip. Róbert er ekki mikið fyrir jólalög en kemst í jólaskap við að hlusta á Artic Monkeys.
Eru einhverjar hefðir hjá ykkur á bæjarskrifstofunni þegar kemur að jólunum?
Við á bæjarskrifstofunni höfum tekið þátt í viðburðum með verslunarfólki á Víkurbraut 62, og þá boðið upp á heitt kakó, vöfflur og bingó í fundarsal bæjarstjórnar. Undanfarin ár hefur starfsfólkið á skrifstofunni reynt að gera eitthvað sem skemmtilegt saman í aðdraganda jóla. Í fyrra var farið á tónleika og í ár á leiksýningu. Einn föstudag á aðventunni tekur starfsfólkið sig til og lagar sérstaklega vel til í kringum sig, hvort sem er á skrifborðum eða í málaskrá, og skreytir skrifstofuna. Í lok þess dag er orðin hefð að fram fari smökkun á helstu tegundum jólabjórs sem eru í boði hér á neðri hæðinni.
Hvernig eru jólahefðir hjá þér?
Við förum flest jól norður í land á aðventunni til að baka laufabrauð með tengdafólkinu. Við bræðurnir og mamma fórum síðan með fjölskyldunum í sumarbústað á aðventunni þar sem við spilum, föndrum og bökum stundum. Það er mjög gott að komast aðeins í burtu á aðventunni. Um jólahátíðina höldum við jólaboð á annan í jólum, en að öðru leyti er reynt að slaka á.
Hver er besta jólamyndin?
Ég á enga uppáhaldsjólamynd, en þegar ég var unglingur komu út tvær mjög skemmtilegar. National lampoons christmas vacation og Home Alone. Þær eru enn mjög ferskar í minninu.
Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Ég er sjálfur voðalega lítið að hlusta á jólalög, en ég fékk Arctic Monkeys diskinn í skóinn í fyrra og kemst í jólaskap þegar ég hlusta á hann.
Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Á aðfangadag er fjölskyldan saman og mest allur dagurinn fer í að undirbúa matinn og hátíðina um kvöldið. Oftast koma mamma og bróðir minn í heimsókn, en í ár verðum við bara fimm.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég fékk Playmobil sjóræningjaskip þegar ég var lítill. Það er mjög eftirminnilegt. Svo eftirminnilegt að ég var eiginlega spenntari en sonurinn þegar við gáfum honum samskonar skip í jólagjöf hér um árið.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Það er mjög breytilegt hvað við höfum í matinn og erum alls ekki vanaföst. Í ár biðja strákarnir um hamborgarhrygg. Í fyrra var það kalkúnn, en við höfum líka verið með hreindýr og nautakjöt.
Eftirminnilegustu jólin?
Það eru fyrstu jólin með frumburðinn. Það er allt öðruvísi að undirbúa jól þegar maður á sjálfur barn. Við fórum norður í land til tengdaforeldranna og eins og móðursjúkum nýforeldrum sæmir tókum við allt fyrir barnið með okkur norður. Bókstaflega allt!
Hvað langar þig í jólagjöf?
Ég veit að það er voðalega væmið, en mér finnst alltaf besta gjöfin að sjá hvað strákarnir mínir eru kátir.
Borðar þú skötu?
Nei, ég reyni að borða sem minnst af skemmdum mat.
Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Þorláksmessa er yfirleitt venjubundinn vinnudagur hjá mér. Þegar ég vann í félagsmálaráðuneytinu fórum við, sem vildum ekki skötu, út og fengum okkur hamborgara á Þorláksmessu. Kölluðum það andskötuveislu!