Björn tekur við af Jóhönnu eftir umdæmisþing Kiwanis í Reykjanesbæ
Kiwanis hélt 53. umdæmisþing Kiwanisumdæmisins Ísland – Færeyjar í Reykjanesbæ dagana 15. til 16. september síðastliðna. Þingið var haldið í Hljómahöllinni en það var í umsjá Kiwanisklúbbanna Keilis og Vörðu.
Þetta er í þriðja sinn sem þingið er haldið í Reykjanesbæ. Fyrst var þingið haldið árið 2000 þegar Guðmundur Pétursson var umdæmisstjóri og aftur árið 2012 þegar Ragnar Örn Pétursson heitinn hélt sitt þing. Nú var það Jóhanna María Einarsdóttir, umdæmisstjóri, sem var að halda sitt þing.
Þingsetning var í Keflavíkurkirkju á föstudagskvöld. Á mælendaskrá voru ásamt Jóhönnu, Gunnsteinn Björnsson, verðandi Evrópuforseti, Bert West frá Divine Colorado, hann er heimsforseti og heimsótti Reykjanesbæ ásamt eiginkonu sinni, Sandy, Svein Gunnar Arnerud, umdæmisstjóri Norden, hann var líka staddur í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu sinni, Olaug, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og að lokum sr. Erla Guðmundsdóttir sem blessaði þingið. Inn á milli ávarpa voru svo tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Fyrr um daginn var fræðsla embættismanna og málstofur í Hljómahöll. Á laugardeginum var svo þingið sjálft þar sem meðal annars var ákveðið að næsta landssöfnun með sölu K-lykils verði til styrktar Einstökum börnum sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni.
Þess má geta að Jóhanna, sem var að láta af störfum sem umdæmisstjóri, er félagi í Vörðu sem er Kiwanisklúbbur í Keflavík. Umdæmisstjórinn sem settur var í embætti er Björn B. Kristinsson sem er félagi í Kiwanisklúbbnum Keili, líka úr Keflavík, þannig að Suðurnesjamenn eru áberandi í umdæminu þessi misserin.
Næsta þing verður svo haldið í Færeyjum.