Björk sótti ATP á Ásbrú
Söngkonan Björk Guðmundsdóttir var meðal þeirra gesta sem sótti All Tomorrows Parties tónlistarhátíðina sem fram fór á Ásbrú um helgina. Talsverður fjöldi þekktra tónlistar- og listamanna sótti hátíðina. Vísir.is greinir frá þessu.
Meðal þeirra er sóttu hátíðina voru breska leikkonan Tilda Swinton, söngkonan Björk Guðmundsdóttir, skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson, leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir, plötusnúðurinn Andrea Jónsdóttir og Björn Jörundur Friðbjörnsson.
Ýmis þekkt andlit úr stjórnmálum sáust einnig á hátíðinni og má þar nefna Björt Ólafsdóttur, Björn S. Blöndal, Skúla Helgason, Birgittu Jónsdóttur, Óttarr Proppé og Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.
ATP virðist hafa fallið vel í kramið hjá gestum hátíðarinnar og virðist flestir vera sammála um að hátíðin hafi heppnast mjög vel. Keflvíkingurinn Tómas Young skipulagði hátíðina og stefnir að því að endurtaka leikinn á næsta ári á Ásbrú. Gamla varnarsvæðið virðist einnig hafa hrifið tónleikagesti um helgina.