Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Björk kann greinilega gott að meta,“ segir stjórnandi ATP
Hljómsveitin Æla hélt tónleika fyrir utan Atlantic Studios við mikla lukku tónleikagesta. Myndir/Magnús Elvar Jónsson og Arnar Bergmann.
Föstudagur 5. júlí 2013 kl. 12:24

„Björk kann greinilega gott að meta,“ segir stjórnandi ATP

-Tómas Young hefur hafið undirbúning að All Tomorrow’s Parties hátíðinni að ári

Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties (ATP) fór fram um síðastliðna helgi á Ásbrú. Hátíðin..

-Tómas Young hefur hafið undirbúning að All Tomorrow’s Parties hátíðinni að ári

Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties (ATP) fór fram um síðastliðna helgi á Ásbrú. Hátíðin þótti heppnast afskaplega vel og fékk góða dóma, bæði í fjölmiðlum og meðal tónleikagesta. Nick Cave and The Bad Seeds var stærsta „númer“ hátíðarinnar og lék sveitin á laugardagskvöldinu í Atlantic Stuidos. Þeir tónleikar fengu m.a. fimm stjörnur í Fréttablaðinu. Yfir 20 innlendar og erlendar hljómsveitir léku á hátíðinni í ár. Keflvíkingurinn Tómas Young, skipuleggjandi ATP hátíðarinnar, er gríðarlega ánægður með hvernig til tókst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hátíðin heppnaðist ótrúlega vel. Við fengum ekki eina kvörtun á allri hátíðinni. Það voru engin slagsmál og allt gekk upp,“ segir Tómas. „Þetta var mikil vinna en ég er með gott teymi á bakvið mig sem hjálpaði mér að láta þetta ganga upp. Ég var eiginlega með alla vini mína með mér í þessu.“

Tómas segir að hljómsveitirnar sem komu fram hafi einnig verið mjög ánægðar með hvernig til tókst. „Flestar eru búnar að senda mér þakkarbréf fyrir hátíðina. Ég er mjög ánægður með hversu jákvætt umtal hátíðin hefur fengið og það var mjög skemmtileg stemmning á hátíðinni. Það voru margir í faðmlögum og ólýsanlegt andrúmsloft meðal tónleikagesta.“

„Björk kann greinilega gott að meta“

Mörg fræg andlit litu við á ATP hátíðina á Ásbrú um helgina. Meðal annars mátti sjá þekkta einstaklinga, nánast úr öllum geirum samfélagsins. Frægasta andlitið sem mætti á hátíðina var þó án vafa söngkonan Björk Guðmundsdóttir sem mætti með fjölskyldu sína á hátíðina.

„Það var mjög skemmtilegt að sjá Björk á hátíðinni. Ég er búinn að starfa í þessum geira í mörg ár og starfað við eða farið á gríðarlegan fjölda tónleika hér á landi. Ég hef aldrei áður séð Björk á tónleikum, fyrir utan þegar hún er sjálf að koma fram. Hún kann greinilega gott að meta,“ segir Tómas og hlær. Hann bætir við að þeir erlendu tónleikagestir sem sóttu hátíðina hafi verið mjög ánægðir og einnig erlendir skipuleggjendur ATP hátíðarinnar.

Með hjartað í buxunum eftir að Cave hvarf

Hljómsveitin Nick Cave and The Bad Seeds voru án nokkurs vafa stærsta atriði hátíðarinnar. Það fór um marga þegar söngvarinn Nick Cave hrasaði af sviðinu og féll í gólfið. Hann slapp nánast ómeiddur frá atvikinu og kláraði tónleikana með stæl.

„Ég var með hjartað í buxunum þegar ég sá hann hverfa af sviðinu. Ég stóð frekar aftarlega og þegar ég sá hvað var að gerast þá hélt ég að þetta væri allt að fara að klúðrast,“ segir Tómas. „Hann marðist aðeins á baki og leitaði á slysastofu. Nick var svo hress á Glastonbury hátíðinni í Englandi degi síðar þannig að það hlýtur að vera í lagi með hann.“

Byrjaður að skipuleggja hátíðina að ári

Tómas staðfestir við Víkurfréttir að hátíðin muni fara fram á næsta ári á Ásbrú. Hann segir að tónleikastaðirnir Atlantic Studios og Andrews Theater hafi sannað sig á hátíðinni sem einir bestu tónleikastaðir landsins og hátíðin muni fara fram á sama stað að ári.

„Atlantic Studios er frábær tónleikastaður og Ásbrú er fullkomin fyrir hátíð sem þessa. Það verða eflaust einhverjar breytingar á hátíðinni. Officera-klúbburinn er kannski of langt frá hinum tveimur tónleikastöðunum þannig að við gerum kannski einhverjar breytingar,“ segir Tómas. Er hann byrjaður að bóka hljómsveitir fyrir næsta ár?

„Já, það er ekki seinna vænna. Flestar hljómsveitir í dag eru bókaðar langt fram í tímann og margar þeirra vita hvar þær spila í nóvember árið 2014. Ég er byrjaður að skipuleggja hátíðina. Það verður alveg „nýtt line-up“ á næsta ári og engin af þeim sveitum sem kom fram í ár mun koma fram á næsta ári. Nú erum við búin að sanna okkur og förum spennt í það verkefni að skipuleggja All Tomorrow’s Parties hátíðina á Ásbrú 2014.“


Gleðin var í fyrirrúmi á All Tomorrow's Parties á Ásbrú um síðustu helgi.


Nick Cave teygir sig út í áhorfendaskarann.


Um 3000 manns mættu á ATP-hátíðina um síðustu helgi. Hátíðin að ári verður líklega enn fjölmennari.


Þessar ungu dömur skemmtu sér á ATP.


Það var stemmning langt fram á nótt á Ásbrú um síðustu helgi. Miðnætursólin verður eflaust mörgum erlendum tónleikagestum minnisstæð.