Björgvin til Liverpool
Björgvin Björgvinsson fór í nóvembermánuði helgarferð á Anfield að sjá Liverpool – West Ham, en hann er mikill Liverpool aðdáandi. Björgvin hefur fylgt Willum Þór, þjálfara Keflavíkur í um 11 ár og verið sérstakur aðstoðarmaður hans. Hann fór með fjölskyldu og vinum.
„Ég hef farið 5 sinnum á leik með Liverpool og séð 4 sigra og eitt jafntefli. Það er alltaf gaman að fara á Anfield og upplifa stemninguna og er hún ólýsanleg,“ sagði Björgvin aðspurður hvort hann hafi farið áður á leik með sínu liði.
Björgvin hefur unnið 3 Íslandsmeistaratitla með Willum á sínum ferli, tvo með KR og einn með Val. Björgvin hefur sótt 3 þjálfaranámskeið hjá KSÍ og hefur mjög gaman af því að þjálfa knattspyrnu. „Ég er mjög skapstór og læt í mér heyra ef ég er ekki ánægður með leikmennina. Einnig þoli ég ekki að tapa enda er maður í þessu til að vinna. Ég er bjartsýnn fyrir næsta sumar og er stefnan alltaf tekin á toppinn,“ sagði Björgvin.
Björgvin er þessa dagana að einbeita sér að Futsal en lið Keflavíkur er komið í 8 liða úrslit í Íslandsmótinu í Futsal. Hann segist vera ánægður hjá Keflavík og vilji ekkert fara eitthvað annað, enda er hann kominn heim aftur.