Björgvin Ívar er bálskotinn í Taylor Swift
-Ekkert sakbitið við þessa sælu
Keflvíkingurinn Björgvin Ívar Baldursson hefur þrátt fyrir ungan aldur fengist við tónlist í langan tíma. Hann er barnabarn Rúnars Júlíussonar og segja mætti að hann hafi nánast alið manninn í hljóðverinu hjá Geimsteini, sem er upptökuver í eigu fjölskyldu Rúnars. Þar starfar Björgvin í dag sem upptöku- og rekstrarstjóri en einnig hefur Björgvin verið liðtækur í tónlistinni og spilað í hljómsveitum á borð við Lifun, Elda, Koju, Klassart, I Adapt og Mystery Boy. Björgvin hefur í gegnum tíðina verið viðriðinn rokkið. Þrátt fyrir að blaðamaður vilji síður stimpla Björgvin, þá er hann hörku djöfuls rokkari. Það ætti því að koma flestum á óvart að Björgin er eldheitur aðdáandi bandarísku söngkonunnar Taylor Swift. Í sumar skellti Björgvin sér á tónleika með Swift í Bandaríkjunum ásamt Ingu Lilju kærustu sinni. Hann segir þá upplifun hafa verið rosalega en á tónleikunum ætlaði allt um koll að keyra. Blaðamaður Víkurfrétta forvitnaðist um þennan áhuga Björgvins á poppsöngkonunni sykursætu.
Björgvin er ekki alveg klár á því hvernig þessi áhugi á tónlist Swift hafi kviknað. „Það hefur örugglega verið í kringum 2008 þegar önnur platan hennar, Fearless, kom út og Love Story og You belong with me voru í gangi. Ég hef pottþétt lent á þessu á youtube, en þetta er alveg akkúrat popp/kántrí bræðingur sem ég fíla,“ segir Björgvin sem haldið hefur heiðri hennar á lofti síðan og aldrei farið leynt með aðdáun sína á henni. „Nei það hef ég aldrei gert, það er ekkert sakbitið við þessa sælu.“
Hvað er svona sérstakt við Taylor Swift?
„Það er til dæmis það að hún er frábær lagahöfundur og ekki bara miðað við aldur. Ég hef sagt það í mörg ár að hún verði sett á sömu blaðsíðu í tónlistarsögunni og bestu kvenkyns lagahöfundarnir: Sheryl Crow, Shania Twain, Carole King og Carly Simon,“ segir Björgvin. Björgvin hrærist í tónlistarheiminum og hittir fyrir tónlistarmenn sem deila ekkert endilega þessari hrifningu á Taylor Swift.
„Ég held að smátt og smátt sé hún að vinna sér inn smá töff orðstír enda heilbrigð og flott ung stúlka sem semur sína eigin tónlist. En ég hef oft þurft að „berjast“ fyrir henni þegar hún hefur borið á góma í umræðum með einhverju öðru töff tónlistarfólki. Sumir eiga erfitt með að kyngja því að gott er gott sama hvaðan það kemur og eiga auðvelt með að setja stimpla á eitthvað án þess að hafa kynnt sér það betur.“
Björgvin var harður rokkari hér áður fyrr, en skildi hann vera að mýkjast með árunum?
„Ég er náttúrulega ennþá rokkari og var til að mynda á sama tíma og ég heyrði í henni fyrst í þungarokkhljómsveitinni I adapt. Ég hef alltaf verið mikið fyrir alls konar popp. Svo er það líka merkilegt hvað mikið af fólki sem tengist þungarokksmenningunni kann vel að meta góða popptónlist.“
Eru tveir í aðdáendaklúbbnum
Björgvin hlustar á tónlist Swift undir ýmsum kringumstæðum. Jafnt með dóttur sinni og í góðra vina hópi. „Til dæmis set ég nýju plötuna hennar undir nálina stundum þegar ég og dóttir mín erum að borða morgunmatinn. Ég finn svo einhvern youtube playlista og set í gang ef ég er að vinna á skrifstofunni, svo jafnvel í góðra vina hópi, sérstaklega ef Smári Klári vinur minn er með en við erum báðir í aðdáendaklúbbnum,“ segir Björgvin þó svo að ekki sé til opinber aðdáendaklúbbur Taylor Swift á Íslandi. Enda væri hann líklega fámennur að mati Björgvins. Hann er undrandi yfir því hve söngkonan er lítið vinsæl hér á landi miðað við metin sem hún hefur sett út um allan heim í miða- og plötusölu.
Að tónleikunum. Fórstu gagngert yfir hálfan hnöttinn til þess að sjá hana á tónleikum?
„Já og nei. Það voru uppi einhverjar pælingar hjá fólki í kringum okkur frúna að fara á tónleika erlendis en mér fannst ekki Berlín eða Köben vera nógu framandi. Ég vissi að okkar kona væri á túr svo ég fann tónleika með henni á vesturströndinni og ákvað að gera bara góða ferð og „road trip“ úr þessu. Tónleikarnir fóru fram í San Diego en auk þess heimsóttu þau Björgvin og Inga Las Vegas og San Francisco. Björgvin segir tónleikana hafa verið svæsna. „Ég held að hávaðinn í áhorfendum sé eitthvað sem jafnast á við það þegar Bítlarnir voru og hétu. Fólkið þarna var gjörsamlega að klikkast.“ Þetta var því merkileg upplifun fyrir heitasta aðdáanda Taylor Swift á Íslandi.
Hvernig tekur frúin þessari ást þinni á Swift?
„Tónlistarlega séð alveg rosalega vel, en hún er einmitt líka harður aðdáandi. Ég man eftir því þegar ég fékk bílinn hennar lánaðan fyrst þegar við vorum að hittast að ég renndi í gegnum iPodinn hennar, þar voru mörg lög með Taylor á Top 25 listanum yfir mest spiluðu lögin. Ég er samt ekki viss um að henni standi lengur á sama þegar ég tala um hversu mikið ég er skotinn í henni,“ segir Björgvin og glottir.
Ef einhverjir hafa áhuga á að kynna sér verk Swift þá mælir Björgvin með ýmsu fyrir byrjendur.
„Mér finnst til dæmis rólegri lög eins og Back to December og Tim McGraw rosa fín. Kántrídrullur eins og Mine og Mean líka. Svo af nýja stöffinu er 22 og I knew you were trouble alveg rosalegt stöff enda unnið með Max Martin sem er fyrir löngu orðinn goðsögn í poppbransanum.“