Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Björgunarsveitin Þorbjörn fær góða gjöf
Mánudagur 26. september 2005 kl. 09:37

Björgunarsveitin Þorbjörn fær góða gjöf

Laugardaginn 24. september komu saman í húsi björgunarsveitarinnar afkomendur Dagbjarts Einarssonar frá Garðhúsum og Valgerðar Guðmundsdóttur frá Klöpp, en þau bjuggu í Ásgarði í Grindavík. Við það tækifæri var stjórn björgunarsveitarinnar færður til varðveislu silfurskjöldur í ramma, en þar má lesa æviágrip og um tilurð þess að Dagbjarti var færður þessi silfurskjöldur frá formönnum í Járngerðarstaðarhverfi árið 1944.  Jóhanna Dagbjartsdóttir frá Ásbyrgi  var viðstödd afhendinguna en hún átti stórafmæli en hún varð níræð sama dag og því um tvöfalda ástæðu til að fagna. Um 70 manns voru saman komin, sú elsta níræð og sá yngsti eins árs eða fjórir ættliðir. Á myndinni má sjá Dagbjart Einarsson fyrrv. forstjóra og alnafna færa stjórn sveitarinnar rammann.   

Hér fyrir neðan má lesa texta þann sem er í rammanum:                                            

Dagbjartur Einarsson fæddist að Garðhúsum í Grindavík 18. október 1876. Foreldrar hans voru Einar Jónsson, óðalsbóndi og hreppstjóri, og kona hans Guðrún Sigurðardóttir frá Selvogi.

Dagbjartur bjó í foreldrahúsum til fullorðinsára, en þá gerðist hann lausamaður og síðar formaður og útgerðarmaður. Kona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp í Þórkötlustaðarhverfi. Þau reistu sér bú þar sem hét að Völlum. Árið 1925 urðu þau fyrir miklum búsifjum vegna aftakaveðurs og flóðs sem gerði í janúar við suðurströnd landsins. Þá reistu þau hjón nýtt hús ofarlega í kauptúninu og nefndu Ásgarð.

Dagbjartur hætti formennsku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum á Járngerðarstaðarsundi leiðbeiningar úr landi um veðurhorfur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg, en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn.  Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddu aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans.

Skjöldurinn var gjöf frá formönnum í Járngerðarstaðarhverfi, sem viðurkenning fyrir hjálp á hættustundum. Silfurskjöldinn smíðaði Leifur Kaldal  um miðja síðustu öld, og þykir listasmíð. Leifur Kaldal var talinn meistari í silfursmíð og eru verk eftir hann víða verðmætir safngripir.  

Texti og mynd eru tekin af vef Grindavíkurbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024