Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Björgunarsveitin Þorbjörn 60 ára
Fimmtudagur 1. nóvember 2007 kl. 10:08

Björgunarsveitin Þorbjörn 60 ára

Um þessar mundir eru liðin 60 ár frá stofnun Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík. Björgunarsveitin er eining innan Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns en deildin sjálf var stofnuð árið 1930.

Tilgangur með stofnun sérstakrar björgunarsveitar innan slysavarnadeildarinnar var að sérþjálfa mannskap til björgunarstarfa.

Upphaflega voru 10 manns í björgunarsveitinni en í dag eru félagar sveitarinnar 62. Björgunarsveitin Þorbjörn er bæði land- og sjóbjörgunarsveit en í gegnum tíðina hafa slys á sjó verið mörg við Grindavík og björgunarsveitin því sérhæft sig á þeim vettvangi en að sjálfsögðu er hún einnig vel þjálfuð til björgunarstarfa á landi. Sveitin er með öflugri björgunarsveitum á landinu og eiga vel á þriðja hundrað manns björgunar- og slysavarnafólki í Grindavík líf sitt að launa.

Í tilefni þessara merku tímamóta býður björgunarsveitin öllum bæjarbúum og velunnurum sveitarinnar til afmælisveislu í björgunarstöðinni að Seljabót 10 laugardaginn 3. nóvember milli klukkan 13 og 17.

Boðið verður upp á afmælistertu og kaffi en auk þess verður Candy Floss og popp í boði fyrir börnin. Þá verða tæki sveitarinnar til sýnis ásamt myndum úr starfi sveitarinnar og ef veður leyfir gefst gestum kostur á að reyna sig í kassaklifri eða í klifurveggnum.

VF-mynd/Þorsteinn Gunnar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024