Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Björgunarsveitin Suðurnes kaupir nýjan björgunarhraðbát
Laugardagur 5. júní 2010 kl. 13:22

Björgunarsveitin Suðurnes kaupir nýjan björgunarhraðbát

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa fest kaup á sex björgunarbátum, fimm af gerðinni Atlantic 75 og einn Atlantic 21. Einn þessara báta kemur til Björgunarsveitarinnar Suðurnes.

Björgunarsveitir landsins hafa undanfarið verið að efla sjóbjörgunarþátt sinn enda ekki vanþörf á. Tilkoma strandveiða og niðurskurður hjá opinberum aðilum gera það að verkum að verkefni hafa reynst ærin, sem dæmi má nefna að björgunarskip félagsins hafa í síðustu viku farið um 15 sinnum til aðstoðar bátum í vanda við Íslandsstrendur.

Nýju bátarnir bætast við 14 björgunarskip og um 70 léttabáta sem þegar eru í eigu björgunarsveita allt í kringum landið. Það eru björgunarsveitirnar Gerpir á Neskaupsstað, Geisli á Fáskrúðsfirði, Ársæll í Reykjavík, Suðurnes í Reykjanesbæ, Björg á Eyrarbakka og Brimrún á Eskifirði sem keypt hafa bátana.

Frá árinu 1998 hafa Atlantic 21 bátar verið í notkun hjá björgunarsveitum hér á landi. Bátarnir hafa verið keyptir notaðir frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu (RNLI) og svo er einnig með hina sex nýju báta en Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur keypt báta frá því félagi síðan árið 1929. Helsti munurinn á Atlantic 21 og Atlantic 75 er ballest tankur frammi í bátnum sem hægt er að fylla með sjó. Báturinn verður þ.a.l. framþyngri og betri ef sigla þarf mót báru í miklum vindi. Ekki er að efa að bátar þessi munu reynast vel í aðstæðum sem eru hér við land.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024