Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Björgunarsveitin eins og ein stór fjölskylda
Alma og Anja Snæbjörnsdætur hjá Björgunarsveitinni Suðurnes. Myndin er tekin í sýningarsal GE-bíla við Bolafót 1 í Reykjanesbæ en þar stendur yfir sýning á búnaði sveitarinnar. Allir eru velkomnir og í boði er kaffi, piparkökur og djús. VF-mynd/dagnyhulda
Miðvikudagur 30. desember 2015 kl. 07:00

Björgunarsveitin eins og ein stór fjölskylda

- Segja svekkjandi þegar óveðursútköll koma á prófatíma

Alma og Anja Snæbjörnsdætur eru 21 og 23 ára gamlar systur og björgunarsveitarmenn í Björgunarsveitinni Suðurnes. Þeim finnst fátt skemmtilegra en björgunarsveitarstarfið. „Í sveitinni er mjög skemmtilegur félagsskapur. Við erum náin og eins og ein stór fjölskylda. Í hópnum er fólk með fjölbreyttan bakgrunn og hjá sumum okkar er björgunarsveitin það eina sem tengir okkur saman,” segir Anja. 

Byrjuðu í unglingastarfi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Systurnar sjá um unglingastarfið hjá Björgunarsveitinni Suðurnes ásamt fleirum en þær byrjuðu sjálfar sinn feril innan sveitarinnar þar. Anja fór á kynningarfund hjá Unglingadeildinni Kletti með vinkonum sínum í 9. bekk og strax og Alma hafði aldur til vildi hún gera eins og stóra systir. „Mér fannst allt svo spennandi sem Anja var að gera í björgunarsveitinni,“ segir Alma. Þær segja starfið hjá unglingum snúast mikið um hópefli og að læra í gegnum leik. „Við erum með frábæra unglingadeild sem í eru um 20 flottir krakkar,“ segja þær. Þegar unglingar ljúka nýliðatímabili sínu, yfirleitt um 16 ára aldurinn eða eftir 10. bekk tekur nýliðaþjálfun við. Þá tekur verðandi björgunarsveitarfólk ýmis grunnnámskeið, svo sem í ferðamennsku, fjallamennsku, fyrstu hjálp og öðru. Þeirri þjálfun er skipt í þrjú stig; björgunarmaður I, II og III. Systurnar hafa báðar lokið björgunarmanni I og eru að taka námskeið til að ljúka II og III. Á þriðja stiginu velur fólk sér sérhæfingu, eins og til dæmis köfun, fjallamennsku eða fyrstu hjálp. Þær segja marga velja sér fleiri en eitt sérsvið. Stundum gerist það líka að foreldrar unglinga smitast af áhuga barna sinna og fara sjálfir í nýliðaprógramm. Þær benda á að fyrir fólk 25 ára og eldra sé í boði sérstakt nýliðaprógramm sem taki styttri tíma en hjá unglingunum og eru þá fyrri störf og önnur reynsla metin.

Alma er að læra að verða grunnskólakennari og vinnur með náminu við umönnun á Nesvöllum og við forfallakennslu í Njarðvíkurskóla. Anja stundar nám í hjúkrunarfræði, auk þess að vinna á Landspítalanum. Hún hefur auk þess lokið grunnnámi í sjúkraflutningum og er með réttindi leiðbeinanda í fyrstu hjálp. Í framhaldinu ætlar hún svo að einbeita sér að þeirri sérhæfingu við björgunarsveitarstörfin. Sem stendur einbeitir Alma sér að umsjón unglingastarfsins auk þess að sinna almennum útköllum. „Eins og er hef ég aðeins tíma fyrir það en vildi að ég gæti starfað meira. Það verður að bíða betri tíma,“ segir Alma.

Það er því í nógu að snúast hjá þeim systrum. Þær segja þó ekki erfitt að finna tíma fyrir björgunarsveitina enda sé starfið innan hennar lífsstíll sem þær sinntu ekki nema hafa gaman af. Þær eru sammála um að öll menntun og reynsla nýtist innan sveitarinnar en á misjafnan og mis mikinn hátt. 

Alma og Anja standa nú vaktina ásamt félögum sínum í flugeldasölu Björgunarsveitarinnar Suðurnes.

Jöfn hlutföll kynjanna

Þær systur eru langt í frá einu konurnar sem starfa innan Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Þær segja að á meðal meðlima sveitarinnar sem hvað virkastir eru séu kynjahlutföllin nokkuð jöfn. „Árlega eru haldnir fundir hjá umsjónarmönnum unglingadeilda um allt land og þar eru hlutföllin jöfn og það er mjög skemmtilegt,“ segir Alma. Hún segir konur stundum taka sér frí á meðan börn þeirra séu ung en byrji svo aftur af fullum krafti eftir það. „Konur endast ekkert síður í starfinu en karlar. Þetta snýst fyrst og fremst um áhugann, ef hann er til staðar heldur fólk áfram,“ segir hún.

Fyrir tveimur áratugum síðan eða svo var yfirgnæfandi meirihluti björgunarsveitarmanna karlar. Aðspurðar um hver sé ástæða þess að svo margar konur taki þátt í dag, eru þær ekki í vafa. „Ég held að konur séu frakkari að fara bara af stað í starfið í dag,“ segir Alma. „Kannski að við konur höfum áttað okkur á því að við getum þetta alveg,“ segir Anja. Alma bætir við að allir geti á einhvern hátt tekið þátt í starfi björgunarsveita. „Það þurfa ekki allir að fara upp á þak eða upp á fjöll í útköllum. Það þurfa líka að vera aðgerðastjórnendur í húsi. Ef fólk kemst í gegnum nýliðaprógrammið eru því allir vegir færir innan sveitanna.“

 

Báðar eiga Alma og Anja kærasta sem þær kynntust í björgunarsveitinni og segja þær nokkur pör og hjón meðal björgunarsveitarfólks. „Stundum er það þannig að erfitt er að skipta tímanum á milli fjölskyldunnar og björgunarsveitarinnar. Þá getur hjálpað að makinn eigi sama áhugamál. Stundum skiptast hjón á að fara í útköll, þá mætir annað og hitt er heima með börnin. Það er ekkert endilega móðirin sem er heima, heldur skiptir fólk þessu jafnt á milli sín,“ segir Anja.

Svekkjandi að missa af útkalli

Þar sem Anja og Alma eru báðar í krefjandi háskólanámi þurfa þær að sleppa útköllum þegar þau ber upp á prófatíma. Það gerðist einmitt í hvassviðrinu í byrjun desember en þá voru þær að lesa undir próf. „Það er alltaf svekkjandi þegar óveðursútköllin koma í prófunum en það gerist alltof oft,“ segir Alma.

Þegar flestir halda sig innan dyra vegna veðurofsans fara Anja og Alma út með félögunum sínum í björgunarsveitinni, yfirleitt eru þau vopnuð hömrum, nöglum, plötum og fleiru. Þær segjast aldrei verða hræddar en taka fram að þær fari yfirleitt ekki upp á þök. „Í sveitinni eru húsasmiðir sem mikla reynslu af slíku.“ Þær hafa aldrei lent í hættu en nokkrum sinnum fengið í sig fjúkandi hluti og nokkra marbletti í kjölfarið. „Það getur verið stórhættulegt að fara upp á þök þegar veðrið er sem verst. Við í björgunarsveitunum reynum að gera allt á sem öruggastan hátt. 7. desember síðastliðinn var til dæmis var tekin ákvörðun um að fara ekki upp á þök því það var svo hvasst. Það var ekki talið öruggt,“ segir Alma.

Ánægja að launum

Einu launin sem björgunarsveitarfólk fær er ánægjan. Hver og einn borgar fyrir allan búnað sjálfur, svo sem fyrir hlífðarfatnað. Þær segja útivistarverslanir þó oft veita björgunarsveitarfólki góðan afslátt sem muni um. Sveitin safnar svo fyrir sameiginlegum búnaði og rekstrarkostnaði og er flugeldasalan lang mikilvægasti hluti fjáröflunarinnar ár hvert. 

Oft er talað um að einsdæmi sé á Íslandi að allt björgunarsveitarfólkið starfi í sjálfboðavinnu. Þær systur segja það rétt, eftir því sem þær best viti. „Ég veit ekki um aðrar sveitir sem starfa eins sjálfstætt og hér á Íslandi. Við höfum verið í samstarfi við sveitir í Þýskalandi og því kynnst starfsemi þeirra. Rekstur þeirra er miðstýrður og ríkisrekinn. Bílum og búnaði er úthlutað til sveitanna af ríkinu en fólkið vinnur að hluta til í sjálfboðavinnu. Útköllin hjá þeim eru annars eðlis en hér á landi, þar sem þar verða frekar flóð og lestarslys. Ef björgunarsveitarfólk í Þýskalandi tekur sér frí frá vinnu til að fara í útkall greiðir ríkið til fyrirtækisins sem viðkomandi vinnur hjá þannig að það er næstum því skylda að fólk sé á launum þegar það er í útkalli. Hérna á Íslandi fer það eftir hverjum og einum vinnustað hvort fólk fái leyfi til að fara í útköll,“ segir Anja.

Björgunarsveitarfólk í Reykjanesbæ hefur síðustu vikur verið að undirbúa stærstu fjáröflun ársins, flugeldasöluna, en undirbúningurinn fór á fullt um viku fyrir jól. Alma og Anja hvetja fólk til að styðja við björgunarsveitirnar um áramótin og er ekki annað hægt en að taka undir það.

Alma að störfum ásamt Halldóri Halldórssyni í óveðri í desember. VF-mynd/Hilmar Bragi