Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 28. desember 2001 kl. 11:29

Björgunarsveitarstarf er lífsstíll

Við, hinn almenni borgari, hugsum kannski sjaldan um björgunarsveitir eða störf þeirra. Við heyrum minnst á þær í útvarpi og sjónvarpi þegar það þarf að leita að týndu fólki eða ef óverður geysa og þakplötur fjúka um og skapa hættu. Þetta eru bara lítil dæmi um það sem þeir sem starfa í björgunarsveitum eru tilbúnir að leggja á sig fyrir okkur hin. Björgunarsveitamenn og konur skrifa undir það að vera tilbúin til að fara hvenær sem er hvert sem er til að bjarga okkur hinum. Kristlaug María Sigurðardóttir fór í aðalstöðvar Björgunarsveitarinnar Suðurnes og spurði þá Ragnar Sigurðsson formann sveitarinnar og Gunnar Stefánsson stjórnarmann í sömu sveit út í starfið.

Hvað er björgunarsveit?
Ragnar: Björgunarsveitir eru hópur vel þjálfaðra sjálboðaliða sem bjóða þjónustu sína þegar á þarf að halda, hvenær sem er sólarhringsins, t.d. þegar þörf er á sérhæfðri þekkingu eða búnaði björgunarsveitarmanna s.s. björgun úr klettum, þegar veður eru válynd, ófærð eða skemmdir vegna foks, og þegar verkefnin eru orðin það stór í sniðum að hin almenna neyðarþjónusta, þ.e. lögregla og slökkvilið ræður ekki við og loks er það leit að týndu fólki. Þetta er eingöngu sjálfboðastarf hjá okkur og við gerum út á velvilja almennings þegar við förum í fjáraflanir eins og flugeldasölu. Samfélagið tryggir sig með því að eiga góða björgunarsveitir í landinu og geta kallað okkur til þegar á þarf að halda.
Gunnar: Markmið og metnaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes er að þjóna svæðinu hérna í kring, og raunar öllu landinu. Þá er björgunarsveitin aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg og þar með höfum við líka ákveðnar skyldur hvað varðar slysavarnir. Núna erum við með átak í gangi ásamt VÍS sem heitir: Blástu til gleðilegra jóla, þar sem við hvetjum fólk til að aka ekki eftir að það hefur drukkið áfengi. Þú tekur leigubílinn heim. Við gefum út blöðrur og bæklinga um þetta efni. Það er best að vera með forvarnirnar svo sterkar að maður þurfi ekki á björgunarsveit að halda. Núna um áramótin erum við líka að hvetja fólk til að nota öryggisgleraugu. Allir 10-15 ára krakkar fá gjafabréf á svona gleraugu, það er unnið í samvinnu við Blindrafélagið og við gefum líka öllum leikskólabörnum í Reykjanesbæ hlífðargleraugu og stjörnuljós.
Ragnar: Velvilji borgaranna og auðvitað bæjarfélagsins skiptir okkur því mjög miklu máli, félagið okkar er yfir 30 ára og byggir á gömlum grunni. Það má jafnvel segja að það sé eldra eftir að við sameinuðumst Björgunnarsveitinni Eldey úr Höfnunum, því sú sveit var ein af þeim elstu á landinu.

Hvað felst í því að vera björgunarsveitarmaður?
Gunnar: Ég held að ég verði að segja að björgunarsveitarmaður verði að gefa sig allann að þessu, þetta er lífsstíll. Þú verður að eiga góða og skilningsríka fjölskyldu sem styður við bakið á þér, það er númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er gríðarlega mikið starf, miklar og strangar æfingar, þú gerir raunverulega ekkert annað. Ef þú ætlar að starfa í björgunarsveit þá er hún þitt tómstundamál þú getur ekki sinnt öðru á meðan. Raunverulega þarftu að skrifa undir það að þú sért tilbúinn til fara hvenær sem er hvert sem er. Maður getur verið rifinn upp frá jólahlaðborðinu eða úr faðmi fjölskyldunnar, en við gerum þetta, við förum út og leggjum sjálfa okkur oft í hættu.

Hver eru skilyrðin sem fólk þarf að uppfylla til að komast í björgunarsveit?
Ragnar: Við erum með nýliðadagskrá á hverju ári, sem byrjar í september. Fólk kemur þá inn, skráir sig og starfar með nýliðaflokki. Þegar það er búið að starfa í eitt og hálft ár og skila því starfi sem við krefjumst þ.e. hefur farið á ákveðin námskeið og það þarf líka að mæta ákveðinn hluta, það er u.þ.b 80% mætingaskylda. Þá getur viðkomandi sótt um að komast í sveitina og komast þannig á útkallslista. Síðan erum við með annað prógram fyrir þá sem eru eldri en 23 ára, þar sem við bjóðum upp á hraðferð.

Eru bæði karlar og konur í björgunarsveitinni?
Ragnar: Karlar eru í meirihluta hér hjá okkur en það eru þó nokkrar konur hérna líka og þær vinna það sama og við gerum, hér er engin kynjaskipting. Við hvetjum líka konur til að sækja um.
Hvað er framundan hjá sveitinni eftir áramót?
Ragnar: Þá förum við í að klára fyrstuhjálpargáminn okkar. Það er verkefni sem við byrjuðum á í fyrra. Þessi búnaður er eini sinnar tegundar hér á landi og er okkur mjög mikivægur því okkar hlutverk í almannavarnarkerfinu er fyrsta hjálp. Búnaðurinn styttir einnig viðbragðstíma okkar til mikilla muna því ef það verður stórslys þá hengjum við hann aftan í bíl og förum af stað. Þessi búnaður samanstendur af tveimur uppblásanlegum tjöldum alls 80 fermetrar, þar sem er starfrækt er fullkomin greiningarstöð, fyrstuhjálparbúnaði fyrir 24 manns auk rafstöðva ljósabúnaðar og þess háttar. Greiningarstöðin er starfrækt með greiningarsveit lækna sem kemur annað hvort frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eða frá borgarspítalanum og þar fer fram frumflokkun á sjúklingum og þeir settir í forgangshópa til flutnings á sjúkrahús.

Gunnar: Eins og ég sagði áðan þá er það metnaður okkar að sinna þessu samfélagi hérna og við erum tilbúin til að fara af stað hvenær sem er. Við erum með bát og erum alltaf viðbúin í útkall með hann eða fara gangandi ef einhver gangandi týnist eða hrapar í björgum. Svo náttúrulega förum við í stærri útköll út á land ef stórvægilegir atburðir gerast þar.

Hvað eru margir félagar í Björgunarsveitinni Suðurnes?
Við erum 35 í fyrsta útkalli og svona 50 í öðru útkalli. En félagar í sveitinni eru um það bil 200.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024