Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Björgunarsveitarfólk stendur upp úr á árinu
Fríða Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Sandgerði.
Föstudagur 1. janúar 2016 kl. 09:00

Björgunarsveitarfólk stendur upp úr á árinu

Við áramót: Fríða Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Sandgerði

Hvað stóð upp úr í fréttum ársins 2015 á Suðurnesjum?
„Málefni aldraðra og staða þeirra kemur fyrst upp í hugann, en að mínu mati er svolítið verið að „humma“ af sér ástandið sem nú er uppi. Í byrjun árs voru rúmlega 50 aldraðir á biðlista til að komast á hjúkrunarheimili og í dag er svipuð staða, en á sama tíma hefur þörf á heimahjúkrun aukist um 20%. Öldungaráð Suðurnesja er öflugt og duglegt að ýta á eftir því að eitthvað sé gert í þessum málum, en á meðan heilbrigðiskerfið og málefni aldraðra eru bæði á hendi ríkisins og sveitafélaganna er ávallt verið að benda á hinn aðilann til að bæta ástandið, en lítið gerist. Öldruðum fjölgar hlutfallslega, það er staðreynd og vona ég að meira verði gert í þeirra málum 2016.“ 
 
Hvaða Suðurnesjamaður var mest áberandi að þínu mati þetta árið?
„Ég tilnefni alla björgunarsveitamenn á Suðurnesjum. Þeir hafa staðið sig virkilega vel á árinu við erfiðar aðstæður í okkar öfgakennda vetrarveðri. Það er ótrúlegt að björgunarsveitarmenn vinni starf sitt í sjálfboðavinnu, miðað við hversu erfitt það starf getur verið. Ég skil eiginlega ekki ennþá af hverju björgunarsveitir landsins fá ekki sérstök fjárframlög frá ríkinu til að starfa og þurfi því stanslaust að vera í fjáröflunum til að geta haldið áfram að hjálpa fólki. Þeir vinna verulega óeigingjarnt starf og vona ég að allir versli flugelda hjá þeim í ár.“ 
 
Hvað stóð upp úr persónulega hjá þér á þessu ári?
„Árið fyrir mig persónulega var mikið gleðiár, en ég fann ástina og hófum við búskap saman. Vinnan blómstraði og bæjarpólitíkin var ekki eins strembin í ár, enda hef ég lært mikið síðan ég byrjaði og er ég sátt við hvernig við í Sandgerðisbæ höfum spilað út okkar spilum.“ 
 
Hvað breytingar viltu sjá á Suðurnesjum á nýju ári?
„Ég vil sjá meiri jákvæðni, vilja og þrótt í að gera betur. Við eigum að vera stolt af því að vera frá Suðurnesjum. Það er mikil uppsveifla á svæðinu um þessar mundir. Flugstöðin er að stækka, ferðamönnum fjölgar, atvinnuleysi fer minnkandi, fyrirtækjum á svæðinu fer fjölgandi og íbúum fjölgar. Tölum okkur upp á nýju ári, hrósum hvort öðru, verum jákvæð, gerum okkur skýr markmið og horfum björtum augum til framtíðar.“ 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024