Björgum óskabarninu
Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur
Það að skrifa lokaorð reglulega í Víkurfréttir gefur manni svakaleg völd, raunar svo að líkja mætti við galdra. Ég sá það...tja hvítt á hvítu...eftir síðasta pistil minn þar sem ég deildi áhyggjum mínum af snjóleysi með lesendum. Þvert á allar veðurspár skall á með slíkri snjókomu eftir pistilinn að öll met féllu og gestirnir mínir fóru alsælir með upplifunina. Ég þakka lesendum þolinmæðina og lofa að nú er einungis dönsuð sólarsamba á Heiðarbrúninni.
En ég ætla að láta reyna aftur á mátt lokaorðanna og galdranna. Í sama blaði og lokaorðin mín birtust var þessi fyrirsögn: „Óskabarn kauptúnsins. Sundhöllin í Keflavík á sér mikla sögu - Húsnæðið er til sölu og gæti hlotið þau örlög að vera jafnað við jörðu“. Í blaðinu er hin merka saga þessa reisulega húss rakin, en það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og tekið í notkun sem sundlaug árið 1939. Þarna lærði ég að synda eins og margar kynslóðir Keflvíkinga. Slík var eftirvænting bæjarbúa fyrir opnun sundlaugarinnar að amma mín Eiríka sendi pabba á sundnámskeið til Reykjavíkur til að hann gæti notið laugarinnar frá fyrsta degi.
Húsið má vissulega muna sinn fífil fegurri, en það má einfaldlega ekki rífa það. Sýnum framsýni, virðingu fyrir sögunni og nýtum það einstaka tækifæri sem þarna gefst til þess að auka líf í miðbænum og við göngustíginn fallega meðfram ströndinni.
En hvað á að gera við húsið, hver á að kaupa, hver ber ábyrgðina?
Stutta svarið er að við gerum það öll. Bæjaryfirvöldum ber í fyrsta lagi að tryggja friðun hússins og leggja þær kvaðir á kaupendur að það verði fært í sem upprunalegasta horf. Og þá væri komið að okkur hinum. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar um hvaða starfsemi gæti verið í húsinu, en hvort sem þarna yrði íþróttasafn, frumkvöðlasetur, myndlistargallerý, hótel, veitingastaður eða fiskmarkaður væri það mín ósk að við gætum tekið höndum saman - íbúar, fjárfestar, bæjaryfirvöld og aðrir áhugasamir - og komið lífi í húsið aftur.
Látum reyna á máttinn...björgum óskabarninu!
Ég er til, en þú?