Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bjöllukór með tónleika í kvöld
Mánudagur 22. júní 2015 kl. 14:00

Bjöllukór með tónleika í kvöld

Bjöllukór TR leggur nú lokahönd á æfingar og annan undirbúning fyrir Bandaríkjaferðina og liður í því eru tvennir tónleikar sem kórinn muna halda áður en hópurinn fer af landi brott.

Þeir fyrri verða í Bergi, Hljómahöll í Reykjanesbæ, í kvöld, mánudaginn 22. júní kl. 20.00 og í Háteigskirkju, þriðjudaginn 23. júní kl.20.00. Þetta eru jafnframt styrktartónleikar og mun allur ágóði renna í ferðasjóð Bjöllukórsins. Aðgöngumiðar verða seldir við innganginn og er miðaverð kr. 2000. Ekki verður hægt að greiða með kortum.

Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (TR) heldur til Bandaríkjanna þann 25. júní nk. þar sem kórinn mun taka þátt í einu stærsta bjöllukóramóti heims, sem haldið er af Bjöllukórasamtökum Bandaríkjanna, Handbell Musicians of America. Mótið er haldið í Amherst í Massachusetts og munu þátttakendur á mótinu verða um 700 talsins.

Í Bandaríkjaferðinni mun Bjöllukór TR jafnframt fara til New York þar sem kórnum hefur verið boðið að taka þátt í viðamiklum tónleikum í einu virtasta tónleikahúsi heims, Carnegie Hall, ásamt sinfóníuhljómsveit, kór og barnakór, en tónleikarnir eru haldnir á vegum Yale University. Það er mikill heiður að fá boð um að koma fram á tónleikum í Carnegie Hall og fáir ef nokkur íslenskur skólahópur fengið slíkt boð áður.
 
Bjöllukór TR var stofnaður fyrir þremur árum og er eini starfandi bjöllukór landsins.  Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri TR, en hún var fyrst til að koma með handbjöllur til Íslands og setja á stofn bjöllukór, en það var árið 1976.

Bjöllukór TR fékk strax við stofnun, mjög spennandi verkefni til að stefna að, en það var að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum hljómsveitarinnar, sem Bjöllukórinn hefur gert árlega síðan og hefur hlutverk hans í því verkefni farið stækkandi ár frá ári.

Bjöllukór TR hefur komið víðar fram en með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. í Árbæjarkirkju og á vegum Keilis.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024