Bjóddu í jólatertu frá Manni ársins á Suðurnesjum!
-ágóðinn rennur til Velferðarsjóðs Suðurnesja
„Þetta ár er búið að vera mjög viðburðarríkt, krefjandi og skemmtilegt,“ segir Elenora Rós Georgesdóttir en hún var valinn maður ársins 2017 af Víkurfréttum. Við bregðum á smá leik með þessari mögnuðu stúlku en hún bakaði stóra og glæsilega súkkulaðitertu sem við bjóðum lesendum að bjóða í. Ágóðinn mun renna í Velferðarsjóð Suðurnesja. Lámarksboð er 15 þús. kr. Hægt er að skella tilboði í kökuna á Facebook-síðu Víkurfrétta.
„Þetta er búið að vera mjög viðburðarríkt ár. Ég tók þátt í kökublaði Vikunnar um daginn og vann smákökukeppni sem Nói Síríus og Kornax stóðu fyrir. Mér finnst mjög gaman að búa til uppskriftir en það er alltaf ákveðið sem þarf að vera í uppskrift til þess að hún heppnist. Það er ákveðin eðlisfræði og ég prófa mig áfram, finnst gaman að því. Draumur minn er að opna bakarí hérna suðurfrá og kaffihús þegar ég er búin að læra. Það væri mjög skemmtilegt.“
Elenora Rós hefur verið dugleg að hjálpa öðrum en hún hefur sjálf reynslu af því að liggja á sjúkrahúsi sem lítið barn og hefur margoft staðið fyrir söfnun handa Barnaspítala Hringsins. „Ég var svo mikið veik sem barn og veit að hver króna skiptir máli sem safnað er fyrir spítalann. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að hjálpa fólki. Ég fékk um síðustu helgi hóp af fólki og fyrirtækjum í lið með mér og hélt viðburð til styrktar minningarsjóði Einars Darra í Fríkirkjunni Reykjavík. Þar söfnuðust 200.000 krónur sem mér fannst alveg frábært en þessir peningar fara í forvarnarfræðslu á vegum minningarsjóðs Einars Darra.“
Ítarlegra viðtal er við Elenoru í VF-Jólablaði II í næstu viku.
Glæsilegt jóla súkkulaðiterta, skreytt í jólastíl, gerð af Elenoru Ósk, Manni ársins á Suðurnesjum 2017. Allur ágóði úr uppboðinu rennur til Velferðarsjóðs Suðurnesja.