Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Bjóða upp á tíðavörur fyrir nemendur
Hermann Nökkvi (t.v.) og Júlíus Viggó (t.h.) en með þeim er Kristín Fjóla, formaður málfundafélags NFS, í matsal Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrr í vor.
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
fimmtudaginn 15. ágúst 2019 kl. 06:00

Bjóða upp á tíðavörur fyrir nemendur

Nýnemar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja verða boðnir velkomnir á nýnemadegi sem haldinn verður næsta föstudag en formleg kennsla við skólann hefst svo miðvikudaginn 21. ágúst. Ný stjórn nemendafélagsins tekur þá formlega við, margt í félagslífinu verður með svipuðum hætti og áður en ýmsu verður þó breytt á komandi skólaári.

Vilja ógleymanlegar annir í FS
„Nýnemadagurinn er nokkurn veginn af sama toga og hann hefur áður verið, enda er hann aðallega í höndum skólastjórnar. Það er verið að skipuleggja nýnemaferðina en hún er á ábyrgð formanns skemmtinefndar,“ segir nýr formaður NFS, Júlíus Viggó Ólafsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Júlíus Viggó Ólafsson, nýr formaður NFS.

Fjórir af sex meðlimum aðalstjórnar NFS koma öll úr sameiginlegu framboði frá því í vor en hópurinn ákvað bjóða sig fram saman til þess að geta náð fram almennilegum breytingum innan félagsins. Hermann Nökkvi Gunnarsson, varaformaður NFS, segir hópinn hafa gríðarlegan metnað fyrir því að félagslíf skólans sé öflugt og hefur hópurinn unnið hörðum höndum í allt sumar við að skipuleggja komandi skólaár. „Við viljum að næstu tvær annir verði ógleymanlegar fyrir nemendur. Við erum að fá ótrúlega flotta listamenn á böllin okkar og síðan erum við spennt fyrir skemmtikvöldunum okkar því að þar verða einnig smá breytingar,“ segir Hermann.


Frá starfshlaupi nemendafélagsins. Gula liðið fagnar hér sigri eftir hinar ýmsu keppnir.

Tíðavörur fyrir nemendur
Þá ætlar stjórn félagsins að fara í það verkefni að endurskrifa lög NFS í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema. „Lögin í dag eru orðin að hindrun frekar en hjálp við störf nemendafélagsins. En annars verður nóg um að vera. Við ætlum meðal annars að vígja nýja skrifstofu aðalstjórnar í 88 húsinu og bjóða upp á tíðavörur í skólanum,“ segir Júlíus Viggó. Hermann Nökkvi bætir því við að mikil eftirspurn hafi verið á tíðavörum meðal nemenda skólans og skrefið sé því mikilvæg þróun. „Okkur fannst mikilvægt að koma þessu í framkvæmd sem fyrst og þess vegna stefnum við að því að koma tíðarvörusjálfsala í skólann á innan við fyrstu tveimur mánuðum annarinnar. Okkur þykir fáránlegt að það hafi ekki verið veitt aðgengi að tíðarvörum innan skólans fyrir löngu síðan en núna er loksins vilji fyrir því að koma svona mikilvægu málefni í gegn og við hjá NFS erum stolt af því að standa að þessu mikla réttindamáli.“

Hvetja nýnema að taka þátt
Strákarnir segjast spenntir fyrir því að fá nýja nemendur í skólann og vilja hvetja þá til að sinna félagslífinu eftir bestu getu. „Við hvetjum þau til að mæta á alla viðburði því það er stór munur á viðburðum í grunnskóla og framhaldsskóla. Nýnemar eru stór hluti nemenda og þeir eru líka þeir sem koma til með að taka við þessu nemendafélagi og þess vegna er það okkar hlutverk, núverandi stjórnar, að sýna þeim hversu skemmtilegt og gefandi það er að vera í nemendafélaginu og að taka þátt í félagslífinu.“


Leikrit sýnt af NFS fyrir nokkrum árum síðan.


Frá Hljóðnemanum, undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna.