Bjóða nám í hljóðupptöku hjá MSS
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður upp á nám í hljóðupptökum. Í náminu er farið í helstu atriði sem skipta máli við upptökur á lögum, að lokavinnslu á fullbúnu lagi.
Nemendur læra hvernig á að stilla upp hljóðnemum, upptökuferlið og hljóðblöndun undir styrkri leiðsögn fagmanna. Námið er unnið í samstarfi við Stúdíó Sýrland sem sérhæfir sig m.a. í hljóðsetningu á tónlist, kvikmyndum, talsetningum og upptökum út á vettvangi.
Kennslan fer fram hjá MSS og einnig í fullbúnu hljóðveri hjá Stúdíó Sýrlandi. Kennarar eru mjög reyndir í kennslu en þeir sjá m.a. um Diplómanám í Hljóðtækni í samstarfi við Tækniskólann sem er 1 árs nám.
Hljóðsmiðja I og II eru mjög góður undirbúningur fyrir þá sem hafa hug á áframhaldandi námi á þessu sviði hvort sem það er hérlendis eða erlendis. Námið getur líka hentað þeim sem vilja starfa innan þessa geira eða vinna sjálfir að hugmyndum að lögum eða kvikmyndum.
MSS býður bæði upp á Hljóðsmiðju I og II. Hljóðsmiðja I hefur verið kennd víða um land á undanförnum árum en þetta er í fyrsta sinn sem Hljóðsmiðja II er kennd og er góð viðbót þar sem nemendur öðlast yfirgripsmikla þekkingu að henni lokinni.
Skapandi greinar eru sífellt að verða meira áberandi og kvikmyndagerð og hljóðupptaka eykst með hverju árinu og mikil aðsókn erlendis frá til Íslands. Það þýðir að atvinna á þessu sviði eykst og því miklir möguleikar sem eru til staðar og munu skapast á komandi árum. Einnig má segja að þessi þekking sé mjög hreyfanleg og því spennandi fyrir einstaklinga sem vilja jafnvel vinna erlendis.
Fyrsta námskeiðið hefst í apríl og Hljóðsmiðja II hefst í maí. Þeir sem hafa áhuga er bent á að skrá sig á heimasíðu MSS en takmarkaður fjöldi kemst að.
Einstakt tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á hljóðupptöku og kvikmyndagerð.