BJARTSÝNI VIÐ TÍMAMÓT
Það er við hæfi að staldra við um ára- eða aldamót, nýtt árþúsund eða þúsaldarmót sem er víst nýjasta nafnið í þessu sambandi. Þegar hugurinn reikar til baka t.d. við lestur umdeildrar Sögu Keflavíkur er ljóst að tækniframfarir hafa verið miklar á öllum sviðum og er maður svo sem ekki að flytja ykkur, góðir lesendur, nýjar fréttir með því. Það er hins vegar þægileg tilfinning að sjá hversu framfarir á öllum sviðum hafa verið miklar. Gamalt fólk í dag talar um hversu mikilvægt það hafi verið þegar rafmagn kom, vatn og fleira sem okkur finnst svo sjálfsagt að sé til staðar í dag. En það sem skiptir máli núna er framtíðin og miðað við öra þróun í atvinnu- og mannlífi að undanförnu er óhætt að vera svolítið bjartsýnn, ekki síst í atvinnulegu tilliti. Hér á Suðurnesjum eru miklir möguleikar framundan á ýmsum sviðum. Við ættum að geta nýtt okkur framþróun í nokkrum greinum sem virðast vaxa og vaxa. Þar er hægt að nefna nýtingu jarðhita en Hitaveita Suðurnesja hefur sýnt að þar fer fyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað í aldarfjórðung en upphaf fyrirtækisins þótti gríðarmikið framfaraskref á sínum tíma. Stóriðja er orð sem kemur upp í huga manns þegar hitaveitan er annars vegar ekki síst vegna þessað forráðamenn fyrirtækisins hafa með framsýni hugsað lengra og tekið þátt í margvíslegum atvinnurekstri á svæðinu en eitt dæmi þar er stærra en annað, reyndar miklu stærra. Hér er auðvitað átt við magnesíumverksmiðju en líkur eru á að slík verksmiðja rísi á Reykjanesi. Undirbúningsvinna er í fullum gangi og útlitið gefur okkur góðar vonir. Aðrir möguleikar Suðurnesjamanna hljóta að liggja í ferðaþjónustu og nálægð við flugvöll og þar kemur sjávarútvegurinn einnig til skjalanna í enn frekari útflutningi í flugi. Það er ljóst að breytingarnar í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga hafa verið miklar, ekki síst í Keflavík og nágrenni. Þá er framundan mikil stækkun á Leifsstöð sem og útvíkkun og þensla á öllum rekstri við Leifsstöð sem hefur jákvæð áhrif á stöðu atvinnulífs á svæðinu.Óvissa í atvinnulífi virðist helst vera á Keflavíkurflugvelli. Margir Suðurnesjamenn eiga allt sitt undir varnarliðinu eða verktakafyrirtækjunum stóru. Framtíð varnarliðsins er spurningamerki en síðustu fréttir hafa þó gefið þær vonir að ekki þurfi að óttast að mikil skerðing muni verða á rekstri bandaríkjahers þó svo hún sé einhver á hverju ári.Með afnámi einkaréttar Keflavíkurverktaka og Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli er ljóst að breytingar munu verða á rekstri fyrirtækjanna - sem reyndar er þegar hafinn, m.a. með sameiningu aðildarfélaga Keflavíkurverktaka nú í haust. Það ætti að gera fyrirtækið tilbúnara til að takast ávið nýja öld. Sama má segja um kollega þeirra Aðalverktaka. Þeir hafa þegar fært út kvíarnar og hefja árið 2000 með stæl þegar þeir opna Reykjaneshöllina, - fyrsta yfirbyggða knattspyrnuhúsið á Íslandi.Hér að ofan hefur rétt verið minnst á fá atriði við tímamót sem nú eru að fara í hönd. Í blaðinu í dag er fjölbreytt efni tengt áramótunum. Meðal annars er rætt við nokkra eldri borgara þar sem þeir eru spurðir út í eftirminnileg atvik á öldinni. Þar minnast menn sjóslysa, stofnun hitaveitu, komu rafmagns, hernáms Breta og fleira eins og þegar pensilín var fyrst gefið sjúklingum á Suðurnesjum.Þennan áramótapistil ætla ég að enda á okkur sjálfum, Víkurfréttum. Næsta haust fagnar blaðið 20 ára afmæli. Lesendur hafa örlítið orðið varir við áminningu þess efnis en þetta ár hefur verið notað í ýmsa tilraunastarfsemi í tilefni þessara tímamóta, t.d. með útgáfu tímarits og helgarblaðs. Við munum halda áfram á nýju ári en vöxtur Víkurfrétta hefur verið góður undanfarin ár en ekki þarf þó að fletta lengra aftur nema um hálfan áratug til að rifja upp að „kreppan“ í byrjun þessa síðasta áratugar fór ekki framhjá okkur. Blaðið hefur hins vegar ekki síður notið vaxtar í góðærinu og hafa starfsmenn notað það til að þróa blaðið og bæta. Á nýju ári munum við sprella eitthvað á afmælisári VF.Við þetta tækifæri flytjum við öllum Suðurnesjamönnum, lesendum, auglýsendum og öllum þeim sem hafa tengst útgáfu blaðsins bestu ára- og aldamótakveðjur með von um góðar samverustundir á nýrri öld. Páll Ketilsson