Bjartir tímar framundan
„Sem þriggja barna móðir í fullu starfi þá er sjaldan lognmolla í kringum mig en nákvæmlega þannig líður mér best,“ segir Inga Lára Jónsdóttir, nýr útibússtjóri Securitas á Reykjanesi. Auk þess að sinna nýrri stöðu sinni hjá Securitas þjálfar hún Súperform og spinning í Sporthúsinu í Reykjanesbæ.
Inga segir nýja starfið vera krefjandi og fjölbreytt en hún er spennt að takast á við þetta nýja verkefni. „Það tekur alltaf tíma að komast inn í nýtt starf en ég hef mjög góða tilfinningu fyrir starfinu og er þakklát fyrir hvað ég hef fengið góðar móttökur bæði frá viðskiptavinum og starfsfólki,“ segir hún. Covid hafði töluverð áhrif á Securitas á Reykjanesi meðal annars vegna þess að hluti starfseminnar fór fram á Keflavíkurflugvelli. Inga segir allt vera að komast í eðlilegt horf aftur hjá fyrirtækinu. „Það eru mörg tækifæri á Reykjanesinu og bjartir tímar fram undan,“ segir hún.
Átti fullkominn brúðkaupsdag
Sumarið hennar Ingu hefur verið „yndislegt“ að eigin sögn en hún og eiginmaður hennar, Guðni, giftu sig þann 18. júní. „Við áttum hreint út sagt fullkominn dag með fjölskyldum okkar og vinum. Við skelltum okkur síðan í „brúðkaupsferð“ með prinsunum okkar þremur til Spánar þar sem við nutum þess að leika okkur saman frá morgni til kvölds,“ segir Inga.